Bíladellumaður með djúpa vasa

Chris Evans virðist eiga nær ótæmandi sjóði til að kaupa …
Chris Evans virðist eiga nær ótæmandi sjóði til að kaupa bíla af öllum mögulegum gerðum. Hann er greinilega maður á réttri hillu í lífinu.

Dramtíkin á bak við tjöldin hjá Top Gear ætti ekki að hafa farið framhjá neinum. Jeremy Clarkson lét skapið og stjörnustælana hlaupa með sig í gönur og var gefinn reisupassinn, og félagarnir Richard Hammond og James May létu sig líka hverfa til að vinna að einhverju nýju og spennandi með sínum gamla en umdeilda félaga.

Skömmu síðar var tilkynnt að Chris Evans tæki við sem stjórnandi bílaþáttanna vinsælu. Evans þessi er sennilega ekki mjög kunnugur Íslendingum en í Bretlandi er hann mikil stjarna. Hann hóf fjölmiðlaferilinn ungur að aldri, fyrst í Manchester og síðan gekk hann til liðs við útvarpsstöð BBC í London. Fyrr en varði var Evans kominn á sjónvarpsskjáinn og milljónir manna horfa og hlusta í viku hverri á háðfuglinn og félaga bæði í útvarpi og sjónvarpi.

Vinsældirnar þýddu að Evans gat samið um vel útilátna þóknun fyrir störf sín, og samkvæmt úttekt Sunday Times var hann hæst launaði skemmtikraftur Bretlands árið 2000.

Svarar það spurningunni um hvernig í ósköpunum þessi rauðhærði sprelligosi hefur haft efni á að sanka að sér stóru safni af dýrum og fágætum bílum. Chris Evans er með bíladellu á háu stigi og safnar bæði gömlum eðalvögnum, veglegum drossíum sem helst hæfa kóngafólki, og svo hraðskreiðum straumlínulöguðum fákum. Telegraph segir að fyrir suma bílana hafi þáttastjórnandinn greitt milljónir punda, eða hundruð milljóna króna.

Svartur á vel yfir milljarð

Einn af dýrustu bílunum í safni Evans er kolsvartur Ferrari 250 GT California Spider af árgerð 1961, með bílnúmerið FER 1. Kaupverðið var hvorki meira né minna en 6 milljónir punda eða hér um bil 1,2 milljarðar króna. Þætti flestum það fullhátt verð fyrri bíl, jafnvel fyrir fágætan sportbíl sem eitt sinn var í eigu Steve McQueen og James Coburn, en til samanburðar var dýrasti bíll sem selst hefur á uppboði sleginn á jafnvirði rösklega 4,5 milljarða króna síðasta sumar.

Virðist Evans eiga jafnmarga Ferrari-bíla og aðrir eiga pör af skóm. Sést hefur til hans á rauðum Ferrari 275 GTB/6C árgerð 1966, splunkunýjum Ferrari 458 Speciale, grænum Ferrari California Spider árgerð 1959, Ferrari 250 GTO, Ferrari TR61 árgerð 1961, og heiðugulum Ferrari California af nýju kynslóðinni. Árið 2005 tókst Evans að klessukeyra gráan Ferrari 550 Maranello á leiðinni í líkamsræktina en varð sjálfum ekki meint af.

Ekki bara ofursportbílar

Evans er líka eigandi bíls sem notaður var í kvikmyndinni Chitty Chitty Bang Bang frá árinu 1968 með Dick Van Dyke og Sally Ann Howes í aðalhlutverkum. Sex bílar voru framleiddir sérstaklega fyrir kvikmyndina.

Í bílasafninu eru líka nokkur hófsamari ökutæki. Evans á fagurbláa VW Bjöllu af árgerð 1972 og fágætan Ford Escort Mexico smábíl af árgerð 1974. Það er gott fyrir Lundúnabúa að eiga lítinn og lipran bíl og virðist Evans nota Fiat 500 til daglegs amsturs.

Á tyllidögum sækir hann svo lyklana að tveimur Rolls Royce glæsikerrum. Er annar bíllinn gamall og klassískur en hinn nýr og kolsvartur dreki með einkanúmerið FAB 1.

ai@mbl.is

Grár Ferrari 550 Maranello svipaður þeim sem Evans klessukeyrði eitt …
Grár Ferrari 550 Maranello svipaður þeim sem Evans klessukeyrði eitt skiptið á leið í líkamsræktina. Bíllinn skemmdist mikið á hliðinni.
Ekki eru allir Ferrari-bílarnir hans Chris Evans gamlir safnbílar. Ferrari …
Ekki eru allir Ferrari-bílarnir hans Chris Evans gamlir safnbílar. Ferrari 458 Speciale er kröftugri útgáfa af Italia-bílnum, með sportrönd.
Chris Evans á rándýra kolsvartur Ferrari 250 GT California Spyder …
Chris Evans á rándýra kolsvartur Ferrari 250 GT California Spyder bílnum sínum. Þessi kostaði jafnvirði 1,2 milljarðs króna og á merka eigendasögu. Ljósmynd / Wikipedia - Supermach1961 (CC)
Bíll af gerðinni Ferrari 275 GTB. Þessi er árgerð 1967 …
Bíll af gerðinni Ferrari 275 GTB. Þessi er árgerð 1967 en bíll Chris Evans er árgerð 1966. Sérdeilis fallegur og eftirsóknarverður bíll hér á ferð.
Bíllinn úr Chitty Chitty Bang Bang er sérstakur.
Bíllinn úr Chitty Chitty Bang Bang er sérstakur.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: