Trukkurinn stökk 50 metra

Godfrey í loftinu í metstökkinu um helgina.
Godfrey í loftinu í metstökkinu um helgina.

Gregg nokkur Godfrey er enginn venjulegur vörubílstjóri í Bandaríkjunum. Hann er áhættuökuþór og sérhæfir sig í trukkastökki.

Godfrey gerði sér lítið fyrir um helgina og setti nýtt heimsmet í lengdarstökki á trukk. Alla vega bandarískt met en þar í landi tala menn iðulega um heiminn þegar fjallað er um ný bandarísk met.

Hann stökk 166 fet, sem svarar til 50,6 metra. Afrekið vann hann á áhættuakstursmóti í bænum Butte í Montana sem kennt er við Evel Knievel sem gat sér frægðar fyrir stökk á mótorhjólum.

Godfrey hafði sett met fyrir stökk af palli árið 2008 og hljóðaði það upp á 50 fet, eða röska 15 metra. Í fyrra bættu flutningafyrirtækið EMCog Lotusliðið í formúlu-1 það með 83 feta stökki - rúmlega 25 metra - yfir formúlubíl á ferð.

Engir formúlubílar voru viðstaddir metstökkið í Butte um helgina en sjá má hið fífldjarfa afrek í myndskeiðinu sem fylgir fréttinni.

mbl.is