Rafbílar gætu orðið rokdýrir

Tesla model S myndi nær þrefaldast í verði í Danmörku …
Tesla model S myndi nær þrefaldast í verði í Danmörku falli ívilnanir til kaupa á mengunarfríum bílum niður.

Danir sem eru að velta fyrir sér kaupum á rafbíl þurfa hafa hraðar hendur vilji þeir njóta opinberra ívilnana vegna slíkra bíla. Allt stefnir nefnilega í að þær verði ekki framlengdar eða endurnýjaðar þegar núverandi lög renna sitt skeið.

Útlit er sem sagt fyrir að rafbílar verði mun dýrari í Danmörku á næsta ári. Samkvæmt lögum frá 2012 hafa rafbílar verið undanþegnir tollum og öðrum opinberum gjöldum. Tilgangurinn var að draga úr losun gróðurhúsalofts og minnka þörfina fyrir jarðeldsneyti.

Veruleg áhrif til hins verra?

Undanþága þessi frá bifreiðagjöldum rennur út um næstkomandi áramót og ríkisstjórnin danska mun engin áform hafa um að breyta því. Ríkir því óvissa um hvað við tekur í rafbílavæðingunni í Danmörku, ekki síst fari svo að bílar þessir verði skyndilega orðnir rokdýrir. Niðurfelling ívilnana þykir þó líkleg til að hafa veruleg áhrif til hins verra.

Í innflutningi eru lagðir allt að 180% skattar á nýja bíla í Danmörku að frátöldum afsláttum vegna öryggisbúnaðar þeirra. Er þar um að ræða tolla og virðisaukaskatt. Rafbílar hafa verið nánast undanþegnir þessum gjöldum. Stuðningur við rafbíla og önnur mengunarfrí farartæki eins og vetnisbíla hefur verið mikill í Danaveldi og hleðslu- og vetnisstöðvar sprottið upp.

Þreföldun í verði yfirvofandi

Afleiðingar niðurfellingar ívilnana vegna rafbílakaupa eru sýndar svart á hvítu á vefsetrinu teslarati.com fyrir bíl af gerðinni Tesla Model S með 70 kílóvatta rafgeymi. Hann kostar 580.000 danskar að meðtöldum 86.000 króna virðisaukaskatti í Danmörku í dag. Með niðurfellingunni myndi bíllinn skattlagður til fulls hins vegar hækka í 1,5 milljónir danskra króna. Með öðrum orðum næstum því þrefaldast í verði. Það þarf engan hagfræðisnilling til að sjá hvaða áhrif það gæti haft á sölumöguleika Tesla í Danmörku á næsta ári, en hingað til hafa tæplega 1.200 eintök selst þar í landi.

Það er kannski of snemmt fyrir danska áhugamenn um rafbíla að örvænta þótt stutt sé í að ívilnanirnar falli niður. Einhverja von eiga þeir um að stjórnvöldum snúist hugur og þau bjóði áfram upp á einhvers konar ívilnanir. Skattamálaráðherrann Karsten Lauritzen segir nefnilega í samtali við vefsíðu danska verkfræðingafélagsins að síðsumars verði fundin lausn á þessu.

Norðmenn á sömu buxunum

Danska stjórnin er ekki sú eina sem íhugar nú að draga úr afsláttum vegna kaupa á rafbílum og rekstri þeirra. Norska stjórnin er einnig með það til skoðunar að fella niður ýmsar slíkar ívilnanir undir lok áratugarins. Sama saga er sögð af þýsku stjórninni, en þar í landi eru litlar ívilnanir í boði – þrátt fyrir loforð og fyrirheit – og hefur rafbílavæðing aldrei náð sér á strik í Þýskalandi.

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina