Tíunda kynslóð Honda Civic

Honda sýndi 2016 módelið af Honda Civic í hinstu hugmyndaútgáfunni …
Honda sýndi 2016 módelið af Honda Civic í hinstu hugmyndaútgáfunni á bílasýningum í byrjun ársins.

Þótt það hafi ekki verið formlega staðfest bendir allt til þess að frumburður tíundu kynslóðar Honda Civic verði heimsfrumsýndur samtímis í tveimur bandarískum borgum um miðjan september.

Heimildir herma að 16. september næstkomandi verði frumsýningardagurinn og Civic verði þá sviptur hulum bæði í Los Angeles og bílaborginni Detroit.

Athygli vekur að Honda fer ekki með bílinn til sýningarinnar í Frankfurt þrátt fyrir að nýi bíllinn sé hnattrænt módel, þ.e. ekki sérsniðinn að evrópskum eða bandarískum þörfum, eins og verið hefur.

Nýi Civic er byggður upp af algjörlega nýjum undirvagni og brotið verður blað í sögu Honda með því að í honum verða hverfilblásnar vélar sem er nokkurt sem Honda hefur forðast sem heitan eld í Civic hingað til.

Undir vélarhlífinni verður ný 1,5 lítra og fjögurra strokka VTEC-vél en í módelútgáfunum Si og Type R bjóðast nokkur afbrigði af öflugri 2,0 lítra og fjögurra strokka vél.

Það verður fjögurra dyra stallbakur sem teflt verður fram á frumsýningunni en síðar er búist við að birtist bæði tveggja dyra útgáfa og svo hlaðbakur.

mbl.is