42 stundir í umferðarteppu

Umferðarteppa á bandarískri hraðbraut. Þá er eins gott að eitthvað …
Umferðarteppa á bandarískri hraðbraut. Þá er eins gott að eitthvað skemmtilegt sé í gangi í útvarpinu svo tíminn líði hraðar.

Með batnandi ástandi í efnahagslífinu og ódýrara bensíni hefur bílum fjölgað á bandarískum vegum. Afleiðing þess eru auknar umferðarteppur. Meðal-neytandinn mun verja um 42 klukkustundum á ári fastur í umferðinni.

Samkvæmt útreikningum samgöngustofnunar Texasríkis (TTI) kosta umferðarteppur á hraðbrautum og þjóðvegum sem svarar 160 milljörðum dollara árlega. Þar inní er framleiðslutap, bensínsóun meðan beðið er í röðum og tjón á bílum.

Talsmaður ITT segir að auknar umferðarteppur séu hinn óheppilegi fylgifiskur uppgangs í efnahagslífinu. Hann bætir því við, að á undanförnum 12 mánuðum hafi Bandaríkjamenn ekið fleiri kílómetra að jafnaði en 2007, árið fyrir fjármála- og efnahagskreppuna alþjóðlegu.

Að sögn TTI var bílstjóri að jafnaði fastur í umferðinni í 16 stundir árið 1982 og árið 2010 hafði sú töf aukist í kringum 38 stundir á ári. Og þótt meðaltalið nú sé 42 stundir þá er ástandið mun verra á einstökum svæðum og borgum. Verst er ástandið í höfuðstaðnum, Washington D.C. Þar er fólk á leið úr og í vinnu að jafnaði fast í umferðinni í 82 stundir á ári, eða næstum tvöfalt landsmeðaltalið. Í næstu sætum eru borgirnar Los Angeles, San Francisco, New York og San Jose.

Sex af 10 tepptustu hraðbrautum Bandaríkjanna er að finna á Los Angeles svæðinu, tvær í Chicago og hinar tvær í New York.

Versta hraðbrautin fyrir umferðarteppur er US 101 brautin á San Fernando Valley svæðinu við Los Angeles.

Samkvæmt útreikningum bandaríska fjármálaráðuneytisins frá 2012 sóuðust 1,9 milljarðar gallona af eldsneyti – um 7,2 milljarðar lítra – í umferðarteppum árið 2011. Nam það 5% af heildarnotkun bílaeldsneytis það árið og beint tap vegna þess sjö milljarðar dollara.

Í heildina töpuðust um fimm milljarðar vinnustunda í umferðarteppum sem svarar til milljarða dollara framleiðslutaps. Þá var slæmt ástand vega sagt kosta um 400 dollara aukalega vegna viðgerða sem rekja mátti til ástands veganna.

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: