Keppa í Torfæru í Noregi

Tilþrifin eiga til að vera mikil í torfæru.
Tilþrifin eiga til að vera mikil í torfæru. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Fjórtán íslenskir torfærukappar taka þátt í heimsmóti í torfæru (FIA/NEZ) sem fram fer við Skien í Noregi um komandi helgi. Þar leiða 33 ökumenn saman hesta sína, þar af tæplega helmingur íslenskur.

Keppnin fer fram í gríðarlega háum brekkum og munu tilþrif í brautinni jafnan vera all mikil.
Árið 2013 fóru sex íslenskir ökumenn til Skien og uppskáru vel. Ólafur Bragi Jónsson fór með sigur af hólmi og í þriðja sæti varð Snorri Þór Árnason. Báðir keppa þeir einnig um komandi helgi. Í fyrra var þetta mót haldið á Akureyri með þeim árangri að Ólafur Bragi sigraði þar og Snorri Þór varð í öðru sæti.

Mikill áhugi er sagður fyrir keppninni og munu milli 200 og 300 manns fylgja íslensku keppendunum til Skien. Hafa í því sambandi 20 húsbílar verið teknir á leigu ytra.
 
Keppnin hefst klukkan átta að morgni að íslenskum tíma á laugardag og verða þá eknar sex brautir. Stigin sem ökumenn næla sér í fylgja þeim í keppnina á sunnudeginum en þá verða eknar aðrar sex brautir. Hefst atið klukkan 13 að íslenskum tíma á sunnudag en hægt verður að fylgjast með henni í beinni útsendingu á netinu á vefslóðinni: https://smkplay.solidtango.com/

Mótið er stærsti viðburðurinn ár hvert í torfærunni. Norðmennirnir eru sagðir eiga ekkert eftir að gefa eftir, þeir muni tefla fram mjög góðum bílum. Vænta megi rosalegrar baráttu um toppsætin.

Hér má sjá lista yfir alla keppendur í Skien en íslensku keppendurnir eru:

Ólafur Bragi Jónsson - Refurinn - FIA/NEZ meistari 2013 og 2014
Snorri Þór Árnason - Kórdrengurinn Íslandsmeistari 2013, 2014 og 2015
Geir Evert Grímsson - Sleggjan
Ingólfur Guðvarðarson - Guttinn
Alexander Már Steinarsson - All-in
Þór Þormar Pálsson - Spiderman
Haukur Viðar Einarsson - TAZ
Magnús Sigurðsson - Kubbur
Elmar Jón Guðmundsson - Heimasætan
Valdimar Jón Sveinsson - Crash Hard
Atli Jamil Ásgeirsson - Thunderbolt

Sérútbúnir Götubílar:
Aron Ingi Svansson - Zombie
Sigurjón Guðmarsson - Lille Gutt
Jónas Sigurðsson - Lille Bjorn

Meðfylgjandi myndskeið er frá torfærunni í Skien 2013:

mbl.is