Grínistinn sem elskar Porsche

Jerry Seinfeld í þá gömlu góðu daga. Hann þénaði vel …
Jerry Seinfeld í þá gömlu góðu daga. Hann þénaði vel af gríninu.

Það er mesta furða að Jerry Seinfeld hafi ekki löngu verið gerð skil í Bílablaðinu. Þessi yndislegi háðfugl er ástríðufullur og stórtækur bílasafnari með sérstakt blæti fyrir Porsche-bílum.

Bílaáhugann og grínið sameinar hann svo í net-sjónvarpsþáttunum Comedians in Cars Getting Coffee sem hafa verið í gangi frá 2012. Þar skutlast Seinfeld á klassískum bíl eftir skemmtilegum grínista, fær sér kaffi á huggulegu kaffihúsi og ræðir við gest sinn um lífið, tilveruna og hlutskipti grínistans.

Eru þættirnir núna orðnir 41 talsins og dreifast á sex þáttaraðir sem Seinfeld hefur dælt út með miklu hraði, allt að þremur á ári. Fer næsta þáttaröð í loftið árið 2016.

Seinfeld hefur sagt um þættina að hann hafi ekki hæfileikana sem þarf til að stýra venjulegum spjallþætti. Í gegnum Comedians in Cars fer hann í kringum vandann með því að hafa algjört frelsi, og taka spjall við fólk sem hann þekkir oft vel fyrir. Síðan vildi svo heppilega til að þegar hugmyndin að þáttunum kviknaði voru að eiga sér stað miklar framfarir í gerð örsmárra kvikmyndavéla. Er þessvegna hægt að koma litlum myndavélum fyrir innan í og utan á bílum, spjalla og aka án þess að myndavélarnar séu fyrir.

Flugskýli dugar ekki

Greinlegt er að Seinfeld á sand af seðlum. Ein heimild metur auð hans á 800 milljónir dala, jafnvirði rösklega 103 milljarða króna eins og gengið er í dag. Erfitt er að henda reiður á stærð bílasafnsins því Seinfeld hefur tekist að fara nokkuð leynt með umfang flotans, en á einum stað er áætlað að bílar grínistans séu samtals amk 15 milljóna dala virði, jafnvirði nærri tveggja milljarða króna. Ef sú tala er rétt er bílasafnið nokkuð hóflegt miðað við hvað Seinfeld gæti verið að eyða.

Ljóst er að bílarnir eru ekki allir geymdir á heimili Seinfelds vestan við Central Park í London því þar er aðeins pláss fyrir fjóra bíla í bílskúrnum, sem þykir þó mjög ríflegt miðað við Manhattan. Það gefur vísbendingu um stærð bílasafnsins að á 10. áratugnum leigði Seinfeld flugskýli í Santa Monica til að geyma hluta af bílunum sem honum höfðu áskotnast á þeim tímapunkti.

Einstakt Porsche safn

Seinfeld er þekktur fyrir áhuga sinn á Porsche og ber bílasafnið þess merki. Einnig er vitað til þess að stöku VW hefur slæðst með, upp á grín.

Sennilega er dýrasti bíllinn í safninu Porsche 550 RS árgerð 1955. Porsche framleiddi þessa bíla á árunum 1953 til 1956. Voru þeir hannaðir fyrir kappakstursbrautina og bíllinn svo lágur að hann hér um bil faðmar malbikið. Aðeins 70 eintök voru framleidd af þessum fágæta safnbíl sem í dag er metinn á um og uppúr 3,3 milljónir dala, kringum 430 milljónir króna. Hluti af sögu Porsche 550 RS er að hjartaknúsarinn James Dean ók á einmitt þannig bíl þegar hann lenti í árekstrinum sem varð honum að bana árið 1955.

Annað djásn í safninu er Porsche 959. Þessir fágætu bílar voru framleiddir á árunum 1986-1989 og þóttu á þeim tíma mest tæknilega fullkomnu sportbílar sem löglegt var að aka á götum úti. Var bíllinn smíðaður í 337 eintökum og á Seinfeld að hafa borgað um 700.000 dali fyrir að eignast einn slíkan.

En ef einhver einn bíll er líklegur til að vera í uppáhaldi hjá Seinfeld er það sennilega Porsche 911 Carrera RS árgerð 1973 sem er metinn á liðlega hálfa milljón dala. Að margra mati er þetta módel í hópi best heppnuðu bíla sem framleiddir hafa verið. Hefur Seinfeld lýst ökutækinu sem svo að á réttum tíma hafi rétta fólkið komið saman og gert rétta hlutinn.

Blæju-löggubíll

Sést hefur til Seinfelds á fleiri bílum sem eru mjög Seinfeld-legir. Þar á meðal er Porsche 356 SC Cabriolet árgerð 1966 sem smíðaður var fyrir þýsku lögregluna í aðeins tíu eintökum. Þessi snotri litli blæjubíll er með hátalara að aftan, til að gefa vegfarendum skipanir, og forgangsakstursljósið er á armi sem tengdur er við framrúðuna.

Seinfeld á líka snotra litla VW Bjöllu árgerð 1952, með 25 ha vél, og nokkru öflugri VW Kharman Gia frá 1963. Kharman Gia er 2+2 sæta sportbíll sem VW framleiddi meðal annars til að fanga þann mikla áhuga sem Bjallan hafði vakið og var bíllinn á sínum tíma mest innflutti erlendi bíllinn á Bandaríkjamarkaði. ai@mbl.is

Porsche 550 RS er mjög sjaldgæfur bíll sem safnarar greiða …
Porsche 550 RS er mjög sjaldgæfur bíll sem safnarar greiða mikið fyrir. Ljósmynd / Wikipedia - Bluefish (CC)
Porsche 959 þótti mikið tækniundur á sínum tíma og mjög …
Porsche 959 þótti mikið tækniundur á sínum tíma og mjög hraðskreiður. Ljósmynd / Flickr - M 93 (CC)
Porsche blæju-lögreglubíllinn sem Seinfeld áskotnaðist er væntanlega ekki ósvipaður þessum. …
Porsche blæju-lögreglubíllinn sem Seinfeld áskotnaðist er væntanlega ekki ósvipaður þessum. Mjög skemmtilegur bíll og óvenjulegur.
Karmann Ghia frá Volkswagen naut mikilla vinsælda í Bandaríkjunum.
Karmann Ghia frá Volkswagen naut mikilla vinsælda í Bandaríkjunum. Ljósmynd / Flickr - Dave_7 (CC)
Porsche 911 Carrera RS er að margra mati sérlega vel …
Porsche 911 Carrera RS er að margra mati sérlega vel heppnaður bíll.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: