Óku vetnisbíl 2.383 km á sólarhring

Norðmennirnir við metbílinn, Hyundai ix35 Fuel Cell.
Norðmennirnir við metbílinn, Hyundai ix35 Fuel Cell.

Rafbílar hafa verið á götunum í nokkur ár og fjölgar ört. Í flóru lítt- eða ekkert mengandi bíla eru svo að bætast vetnisbílar, eins og Toyota Mirai og Hyundai ix35. Því aukast valkostir neytenda þótt vetnisbílar séu ekki eins algengir og rafbílar.

Rafbílavæðingin hefur þó víðast hvar ekki verið í samræmi við spár og mikil lækkun á eldsneytisverði undanfarin misseri hefur verið þeim óhagfelld. Í vistvænum bílum felast þó miklir möguleikar, eins og dæmið um metakstur tveggja Norðmanna á Hyundai ix35 vetnisbíl sýnir.

Íþróttavísindamaðurinn Arnt-Gøran Hartvig og eðlisfræðingurinn Marius Bornstein eru dæmigerðir óbreyttir borgarar en þeir prófuðu Hyundai ix35 Fuel Cell bíl á þjóðvegum í Þýskalandi. Óku þeir honum stanslaust í sólarhring og lögðu að baki hvorki meira né minna en 2.383 kílómetra. Losaði bíllinn ekki gramm af mengandi lofttegundum, eini úrgangurinn frá honum var hrein vatnsgufa sem féll til við orkuskiptin í vetnisgeymi bílsins.

„Þolakstur þessi dregur fram gagnsemi vetnisbíla okkar og langdrægi, að ekki sé minnst á umhverfisávinninginn. Vetnisverkefni okkar hefur skilað hverjum metáfanganum af öðrum og því er viðeigandi að Hyundai ix35 vetnisbíllinn skyldi setja þetta met,“ segir Thomas A. Schmid, forstjóri Hyundai Motor í Evrópu, í tilefnis langaksturs Norðmannanna tveggja.

Metið settu þeir með því að aka eins oft og þeir gátu fram og aftur rúmlega 300 km leið á milli vetnisstöðvar Vatenfall í HafenCity í Hamborg og vetnisstöðvar Shell í Sachsendam í Berlín. Tók það þá aðeins um þrjár mínútur í hvert sinn að fylla vetnistank bílsins.

Leiðin lá bæði um borgarþéttbýli sem hraðbrautir á vegum úti. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Norðmennirnir tveir komast í metabækur. Í júnímánuði árið 2004 náðu þeir að aka bíl 700 kílómetra á aðeins einni tankfylli.

Hyundai er fyrsti bílsmiðurinn til að fjöldaframleiða og markaðssetja vetnisbíla. Mun ix35 vera ódýrasti vetnisbíllinn sem fáanlegur er í Evrópu og þar er hann seldur í 11 löndum nú þegar. Í honum er 100 kílóvatta rafmótor sem gengur fyrir vetni en með því afli er hámarkshraðinn 160 km/klst og drægi á tankfylli rétt tæpir 600 km.

agas@mbl.is

Uppgefið drægi Hyundai ix35 á tankfylli vetnis er rétt tæpir …
Uppgefið drægi Hyundai ix35 á tankfylli vetnis er rétt tæpir 600 km.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: