Fjórhjóladrifnir fólksbílar seldust mest

Skúli Skúlason við Renault Kadjar í sýningarsal BL við Sævarhöfða.
Skúli Skúlason við Renault Kadjar í sýningarsal BL við Sævarhöfða.

Heldur dró úr bílasölu í ágústmánuði miðað við mánuðinn á undan. Alls seldust 899 fólks- og sendibílar í ágúst miðað við 1.250 í júlí. Munar þar um 351 bíl. Þrátt fyrir það nemur söluaukning á heildarmarkaðnum 41 prósenti það sem af er árinu miðað við sama tímabil 2014.

Um það bil helmingur flotans hefur farið til bílaleiganna eða 5.745 bílar á móti 5.788 bílum sem einstaklingar og atvinnufyrirtæki hafa keypt það sem af er ári. BL heldur hlut sínum sem söluhæsta umboð landsins það sem af er árinu.

„Í ágúst seldi BL 177 fólks- og sendibíla og dró lítils háttar úr markaðshlutdeild fyrirtækisins í mánuðinum á sama tíma og Hekla og Askja juku sína mest innflytjenda. Það sem af er ári hefur BL selt flesta bíla allra innflytjenda eða um 2.600, eða rúmlega 600 fleiri bíla en sá innflytjandi sem næstur kemur. Nemur markaðshlutdeild BL í heild það sem af er ári 22,5 prósentum sem er 0,8% aukning miðað við sama tímabil 2014. Sala á öllum bílgerðum frá BL hefur aukist á árinu miðað við sama tímabil 2014, eða sem nemur 828 bílum fyrstu átta mánuði ársins, sem er 47% aukning miðað við fyrra ár,“ segir í tilkynningu um bílassölu BL.

Þar segir Skúli Kristófer Skúlason, framkvæmdastjóri sölusviðs hjá BL, að eftirspurnin eftir fjórhjóladrifnum bílum hafi aukist mjög. „Við sjáum það vel í okkar sölu þar sem sala slíkra bíla til einstaklinga og fyrirtækja nam um 43 prósentum fyrstu átta mánuði ársins,“ segir Skúli.

Af þeim átta bíltegundum sem BL hefur umboð fyrir bjóða allir úrval fjórhjóladrifinna bíla í samræmi við íslenskar aðstæður. Á það við um fólksbíla á borð við Nissan Qashqai, Subaru Outback og nýju bílana Renault Kadjar og Hyundai Tucson sem kynntir voru í nýliðnum ágúst.

Bílasala BL í ágústmánuði.
Bílasala BL í ágústmánuði.
Nýskráning bílaleigubíla á árinu 2015.
Nýskráning bílaleigubíla á árinu 2015.
mbl.is