Toyota að þróa flugbíl

Vængblöðin ganga upp af bílþakinu.
Vængblöðin ganga upp af bílþakinu.

Ætlar Toyota að freista þess að smíða bíl sem getur flogið líka? Japanski bílrisinn yrði ekki sá fyrsti til að reyna það en allt sem hann tekur sér fyrir hendur gerir hann af stakri alúð og einörðum ásetningi.

Mörgum hugnast vel sú hugsun að geta flogið heim að húsi eftir langan vinnudag og losnað þannig við setur í umferðarhnútum á há annatíma í umferðinni.

Virðist sem Toyota ætla að reyna gera draumsýn þessa að raunverulegum möguleika því fyrirtækið hefur lagt inn umsókn um einkaleyfi á tiltekinni gerð flugbíls sem teikning er fylgir fréttinni sýnir. Samkvæmt henni er staflanlegur vængur ofan á þaki bílsins til að framleiða misjafnlega mikinn lyftikraft.

Unnið hefur verið að rannsóknum og þróun þessa hugmyndabíls hjá Toyota. Háttsettur fulltrúi bílsmiðsins neitar því að um algjöran flugbíl sé að ræða, en miklu fremur bíl sem gæti „lyft sér aðeins af veginum“ eins og loftpúðaskip til að draga úr viðnámi.

Enn sem komið er hvílir mikil leynd yfir verkefninu en niðurstaðan verður eflaust forvitnileg, hver se hún verður.

mbl.is