Lætur alla hina rapparana líta út eins og smágutta

Birdman er svo almennilegur að lána Justin Bieber bílinn þegar …
Birdman er svo almennilegur að lána Justin Bieber bílinn þegar ungstirnið á erindi til Miami.

Undanfarnar vikur hefur Bílablað Morgunblaðsins sagt frá lúxusbílum stórstjarnanna í bandaríska rappheiminum. Fyrstur kom Kanye West sem á fjölbreyttan flota af drossíum og svo Akon sem vill bara hafa bílana hvíta, hvort sem þeir eru Lamborghini eða Ferrari.

En í samanburði við rapparann og tónlistarútgáfumógúlinn Birdman, Bryan Williams, eru bílasöfn þeirra Kanye og Akon tiltölulega hófstillt.

Nokkrir tugir fokdýrra bíla

Birdman gerir fátt annað en að yrkja um peninga, með lögum eins og „Money to Blow“, „Born Stunna“ og „100 Million“. Ekki er skrítið að peningar skuli vera tónlistarmanninm svona hugleiknir, enda virðist hann eiga af þeim heilan helling og eyðir kauði drjúgum skerfi af tekjunum í rándýra og mjög fágæta sportbíla.

Samkvæmt vefsíðum sem fjalla um ríka og fræga fólkið á Birdman ekki færri en 32 bíla, og langsamlega dýrasta bílasafnið af öllum rapphetjunum.

Óljóst eignarhald

Dýrasti bíllinn í safninu er Maybach Exelero sem Birdman ku hafa keypt árið 2011 fyrir 8 milljónir bandaríkjadala, jafnvirði u.þ.b. eins milljarðs króna á núverandi gengi. Það kann að skýra verðmiðann að Exelero var bara smíðaður í einu eintaki, árið 2004. Maybach hannaði og smíðaði bílinn að beiðni Fulda Tires, sem er undirdeild hjá Goodyear, til að prófa nýja kynslóð af dekkjum. Undir húddinu er V12-vél sem framleiðir 700 hestöfl, en útlit bílsins er innblásið af bílunum sem Maybach framleiddi á 4. áratugnum.

Eitthvað virðist þó vera óljóst með eignarhaldið, því árið 2011 sagði þýska bílaritið Motorvision frá því að bíllinn hefði alls ekki verið seldur til Birdman heldur væri í eigu þýska fyrirtækisins Mechathronic.

Bieber má fá Búgattíinn lánaðan

Ef Exeleróinn er ekki í bílskúrnum þarf Birdman ekki að barma sér mikið, því hann getur þá alltaf spanað af stað á rösklega tveggja milljóna dala fagurrauðum Bugatti Veyron-sportbíl. Veyron er hraðskreiðasti fjöldaframleiddi bíll heims og ætti að fara létt með að ná rúmlega 400 km/klst. hámarkshraða. Rataði bíllinn í fréttirnar á síðasta ári þegar Íslandsvinurinn Justin Bieber sást spanandi um Miami á ökutækinu. Á Birdman að hafa leyft Bieber litla að hafa frjáls afnot af bílnum hvenær sem hann er í bænum.

Ekki gengur alltaf að vera á lágreistum sportbílum og við sum tilefni þurfa tónlistarmógúlar að leggja meiri áherslu á þægindin og íburðinn. Til þess hefur Birdman Mayback 62S Landaulet. Bílar eru kallaðir landaulet þegar þeir eru með yfirbyggt rými fyrir bílstjórann en blæju yfir farþegarýminu. Þetta er límósína fyrir þá sem vilja bæði ferðast um í algjörum lúxus og tryggja að allir nærstaddir sjái til þeirra svolgra kampavínið og gúffa í sig kavíarinn.

Einnig eru í bílasafninu Lamborghini Aventador og Bentley Mulsanne Coupe, en eftir upptalninguna hér að framan er varla annað hægt en að telja upp þessa rándýru lúxusbíla í framhjáhlaupi.

Fékk ekki Veneno

Miðað við það hvað karlinn er ríkur, og hvað hann hefur greinilega mikla ástríðu fyrir bílum, er varla hægt að reikna með öðru en að það hafi verið sár vonbrigði árið 2013 þegar Birdman auðnaðist ekki að kaupa Lamborghini Veneno-sportbíl, sem ítalski bílaframleiðandinn smíðaði í aðeins fimm eintökum. Bara þrír bílar voru boðnir til sölu og á Birdman að hafa borgað milljón dala inn á þennan 4,6 milljóna dala bíl til að tryggja sér eintak.

Veneno var framleiddur í tilefni af 50 ára afmæli Lamborghini, og sló met sem dýrasti fjöldaframleiddi bíll sögunnar, framúrstefnulega hannaður að utan og með um 740 hestafla vél milli afturdekkjanna. Voru það tveir bandarískir frumkvöðlar og einn kaupandi í Sameinuðu arabísku furstadæmunum sem fengu bílana þrjá. Svona er nú lífið stundum ósanngjarnt. ai@mbl.is

Þrátt fyrir að eiga sand af seðlum tókst Birdman ekki …
Þrátt fyrir að eiga sand af seðlum tókst Birdman ekki að tryggja sér einn af þremur Lamborghini Veneno-sportbílum.
Maybach Exelero var aðeins smíðaður í einu eintaki. Hér sést …
Maybach Exelero var aðeins smíðaður í einu eintaki. Hér sést þessi fagri bíll til sýnis á bílasýningunni Councours d’Elegance.
Í myndböndum sínum gætir Birdman þess að hafa sportbíla og …
Í myndböndum sínum gætir Birdman þess að hafa sportbíla og önnur stöðutákn áberandi í hverjum ramma. Skjáskot úr laginu Born Stunna.
Maybach 62 Landaulet er lúxusbifreið fyrir þá sem vilja sýna …
Maybach 62 Landaulet er lúxusbifreið fyrir þá sem vilja sýna sig og sjá aðra.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: