Tesla Model S fleygt út

Tesla model S.
Tesla model S.

Hlutabréf í fyrirtækinu Tesla Motors Inc. hrundu um 6,6% í verði í kauphöllinni á Wall Street í New York sl. þriðjudag.

Að sögn Marketwatch.com er ástæðan sú, að bandarísku neytendasamtökin hafa fjarlægt Model S bílinn af lista sínum yfir bíla sem það mælir með kaupum á.

Í málgagni neytendasamtakanna, Consumer Reports, kemur fram, að í nýrri viðamikilli rannsókn þeirra á endingartrausti bíla kom Model S verr út en meðalbíllinn. Í sambærilegri könnun fyrir ári var Model S flokkaður sem meðalbíll hvað áreiðanleika varðaði og hefur því fallið niður um þrep.

Alls tóku 1.400 eigendur Tesla Model S þátt í könnuninni að þessu sinni. Meðal umkvörtunarefna þeirra voru vandamál með hurðahúna, aflrásina, hleðslubúnað, oprna bremsudiska, rúðuþurrkur, snertiskjá og svo brak og bresti innan í bílnum svo eitthvað sé nefnt.

Þrátt fyrir vandamálin sögðust 97% eigenda Tesla Model S myndu kaupa annan slíkan og lofuðu þeir ábyrgðarþjónustu rafbílasmiðsins bandaríska. 

Lexus frá lúxusbíladeild Toyota kom best út í ánægjukönnuninni. Í öðru sæti varð Toyota og í næstu sætum VW, Audi, Mazda og Subaru.

Óhætt er að segja að skammt sé stórra högga á milli varðandi Consumer Reports og Tesla. Ekki eru nema tveir mánuðir frá því neytendaritið gaf Tesla Model S P85D hæstu einkunn sem það hefur veitt nokkrum bíl eftir reynsluakstur.

mbl.is