Hundraðasti rafbíllinn afhentur

Hundraðasti rafbíllinn var afhentur Úlfi og Gísla Úlfarssonum á Ísafirði.
Hundraðasti rafbíllinn var afhentur Úlfi og Gísla Úlfarssonum á Ísafirði.

Hekla hefur selt eitthundrað rafbíla það sem af er ári. Þann hundraðasta keyptu bræðurnir Úlfur og Gísli Úlfarssynir á Ísafirði, oftast kenndir við veitingastaðinn Hamraborg þar í bæ. 

„Það er mikil eftirspurn eftir rafbílum hjá Volkswagen og á árinu hafa selst yfir hundrað rafbílar af tegundunum e-up! og e-Golf. Í dag er Volkswagen e-Golf mest seldi rafbíllinn á Íslandi,“ segir í tilkynningu frá Heklu.

Rafmagnsbíll bræðranna er e-Golf og var afhentur þeim hjá Heklu-umboðinu á Ísafirði. Bræðurnir hyggjast nota hann til heimsendinga á skyndibita enda smellpassi bíllinn starfseminni.

„Það er einkar ánægjulegt að hundraðasti rafbíllinn skuli fara til Ísafjarðar. Þróun síðustu ára er mjög ánægjuleg og fjöldi seldra rafbíla á árinu gefur góð fyrirheit um rafmagnaða framtíð bílaflotans á Íslandi,“ segir Árni Þorsteinsson, sölustjóri Volkswagen. „Árið 2011 voru aðeins um fimmtán rafbílar skráðir á Íslandi en í júní síðastliðnum voru þeir orðnir 463 talsins. Það sýnir að mikil umbylting hefur orðið í þessum málum og áhugi fólks á vistvænum bílum hefur aukist mikið.“

Í tilkynningu Heklu segir að e-up! megi aka allt að 160 km á einni hleðslu við bestu aðstæður og noti hann aðeins 11,7 kWst á 100 km sem gerir hann að einum hagkvæmasta bíl sinnar tegundar. e-up! líður hljóðlaus um göturnar á 83 hestafla 60kW rafmótor með 210 NM togi en auk þess að vera hagkvæmur og þögull er hann öryggið uppmálað því hann hlaut fimm stjörnur í árekstrarprófun Euro NCAP.

E-Golf sameinar 40 ára reynslu Golf og nýjustu tækniframfarir. Líkt og e-up! er hann knúinn áfram á 100% hreinni orku og koltvíildislosun því er engin. Drægið er allt að 190 km við kjöraðstæður og eyðsla á hverja 100 km 12,7 kWst. Rafmótorinn er 115 hestafla. E-Golf er snar og snöggur; kemst upp í 60 km hraða á 4 sekúndum. Átta ára ábyrgð er á rafhlöðu og hleðslubúnaði í báðum bílum.

mbl.is