Hlutfall vistvænna bíla aldrei hærra

Renault Zoe og Nissan Leaf eru á meðal mest seldu …
Renault Zoe og Nissan Leaf eru á meðal mest seldu rafbílanna í Noregi. AFP

Vistvænir bílar námu 17,1% af öllum nýskráðum bílum í Noregi í fyrra og er markaðshlutdeild slíkra bíla hvergi hærri í heiminum. Nær allir bílarnir eru rafbílar en auk þess seldust örfáir vetnisbílar. Hlutfall vistvænna bíla jókst um 4,6 prósentustig á milli ára og hefur aldrei verið hærra. 

Mest seldu vistvænu bílarnir voru rafútgáfan af Volkswagen Golf, Tesla S, Nissan Leaf, BMW i3 og Renault Zoe, samkvæmt tölum upplýsingaráðs um bílaumferð í Noregi. Tæplega 26.000 bílar sem losa ekki gróðurhúsalofttegundir voru nýskráðir á síðasta ári af 150.700 nýjum einkabílum.

Norsk stjórnvöld bjóða upp á fjölda hvata til þess að fá fólk til að kaupa vistvæna bíla. Eigendur þeirra fá skattaívilnanir og geta að ákveðnum skilyrðum uppfylltum nýtt sér sérstakar akreinar og ókeypis bílastæði. Áætlanir eru hins vegar um að draga smám saman úr þessum hvötum.

„Það verður að vera áfram ábatasamt að velja vistvæna bíla. Rafbílamarkaðurinn ber sig ekki ennþá án niðurgreiðslna,“ segir Christina Bu,  frá Rafbílasambandi Noregs.

mbl.is