Árið byrjar af krafti í bílasölu

Nissan Qashqai var mest seldi sportjeppinn í landinu í janúar.
Nissan Qashqai var mest seldi sportjeppinn í landinu í janúar.

Sala á nýjum fólks- og sendibílum var 76% meiri í nýliðnum janúar en í sama mánuði 2015 samkvæmt skráningartölum Samgöngustofu.

Alls seldist 1341 bíll í mánuðinum, samanborið við 761 bíl í janúar 2015. Af þeim keyptu einstaklingar og fyrirtæki (án bílaleiga) 846 bíla og bílaleigurnar 495, að því er fram kemur í tilkynningu frá bílaumboðinu BL.

Eftirtektarvert er að bílaleigurnar keyptu 204 prósentum fleiri bíla í nýliðnum mánuði heldur en í janúar 2015, alls 495 bíla. Skýringin á þessari aukningu er að hluta til sú, að kaupmynstur bílaleiganna hefur breyst verulega á undanförnum þremur árum. Bílakaup leiganna fór áður eingöngu fram á vorin og eitthvað fram á sumar, en nú dreifist hún miklu jafnar yfir árið.

BL seldi 337 bíla í janúar samanborðið við 173 í sama mánuði 2015 sem er 95% aukning. Af einstökum bíltegundum hjá BL seldist Renault í flestum eintökum, eða 92. Vinsælasta einstaka bílgerðin var hins vegar Nissan Qashqai sem jafnframt var mest seldi sportjeppinn í janúar með 47 selda bíla.

Markaðshlutdeild BL var 25,1% í janúar samanborið við 22,7% í sama mánuði fyrir ári. 

mbl.is