Gömlum bílum úthýst

Frá og með 1. júní næstkomandi verður bílum mismunað varðandi aðgengi að frönsku höfuðborginni, París, og akstur um götur hennar.

Verður öllum bílum af árgerðinni 1997 og eldri árgerðum óheimill akstur í París. Í júlí í fyrra var fyrsta skrefið stigið í þá átt að draga úr mengun frá bílaumferð er ferðir hópferðabifreiða og stærri vörubíla voru bannaðar í borginni.

„Menn hafa áhyggjur af lýðheilsu almennings og við getum ekki lengur setið hjá aðgerðarlaus,“ segir borgarstjórinn Anne Hidalgo um bílabannið í París.

Vistvænir tímar framundan

Frá og með árinu 2021 fá einungis bílar í vistvænsta bílaflokki að aka um götur Parísar. Hidalgo segist hafa lagt að jarðlestarfyrirtækinu RATP að lengja þjónustutíma jarðlestanna til að taka við þeim farþegum sem ella hefðu farið á bílum til vinnu. Takmarkið segir hún vera að lestarnar gangi allan sólarhringinn en bæta mætti þjónustuna til að byrja með með því að lengja aksturinn um klukkustund á ári. Í dag ganga jarðlestarnar frá klukkan fimm á morgnana og þar til eitt eftir miðnætti, eða í 20 stundir af 24 á sólarhring.

Fyrir utan bannið við akstri eldri fólksbíla í París frá og með 1. júní samþykktu borgaryfirvöld að hvetja til aukinnar notkunar raf- og tvinnbíla með því að leysa slíka bíla undan því að borga fyrir bílastæði.

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina