Ekur 800 km í hjólastól

Gilles Houbart hefur verið að undirbúa sig undir ferðalagið langa.
Gilles Houbart hefur verið að undirbúa sig undir ferðalagið langa. AFP

Sextugur franskur maður, Gilles Houbart, ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur þótt við fötlun eigi að stríða. Nú áformar hann að aka 800 km leið til Parísar á hjólastól.

Tilgangurinn með ferðalaginu óvenjulega er að vekja athygli á hrörnunarsjúkdómnum ALS en skammstöfunin stendur fyrir „amyotrophic lateral sclerosis“.
Houbart hefur ferðalagið í heimabæ sínum Bellentre í  Alpahéraðinu Savoie og er hjólastóll hans rafknúinn. Ráðgerir hann að leggja af stað 30. maí og ná til Parísar 11. júní og taka þátt í mótmæla- og vakningargöngu þann dag frá Pitié-Salpêtrière sjúkrahúsinu að innanríkisráðuneytinu.

Gilles Houbart þarf að leggja tugi kílómetra að baki dag hvern til að ná settu marki, en samtals er leiðin sem hann ætlar að þræða 788 km. Hefur hann það að markmiði að stysta dagleið verði ekki undir 50 km. Hann er fyrrum fjallaleiðsögumaður en greindist árið 2011 með ALS, sem einnig er talað um sem Charcot- eða Lou Gehrig-sjúkdóminn. Veldur hann hægfara hrörnun í hreyfitaugafrumum í heila og mænu.

Houbart verður ekki einn á ferð því í ferðalagið mun slást með honum maður að nafni Fabrice Richel sem skaddaðist á mænu við að hrapa við klifur. Mun hann hjóla á sérlegu reiðhjóli sem smíðað hefur verið með tilliti til fötlunar hans.

Á meðfylgjandi myndskeiði er að finna kynningu á verkefninu mikla:

mbl.is