Gunnlaugur efstur eftir fyrstu umferð

Þrír efstu menn eftir fyrstu umferð Íslandsmótsins í körtuakstri. Frá …
Þrír efstu menn eftir fyrstu umferð Íslandsmótsins í körtuakstri. Frá vinstri: Ragnar Skúlason, Gunnlaugur Jónasson, Hafsteinn Örn Eyþórsson. Ljósmynd/Arnar Leví Marísson

Gunnlaugur Jónasson varð hlutskarpastur í fyrstu umferð Íslandsmótsins í körtukappakstri (gokart) sem háð var á akstursíþróttasvæði Akstursíþróttafélags Hafnarfjarðar (AÍH) í Kapelluhrauni á laugardag.

Tímataka hófst klukkan 12 og þar náði Gunnlaugur besta tíma, 42,321 sekúndum, annar varð Ragnar Skúlason og þriðji Hafsteinn Örn Eyþórsson.

Keppnin hófst svo 12:30 og fór Ragnar með sigur af hólmi í fyrsta riðli, sem gaf honum 10 stig og ráspól í næsta riðli. Annar varð Gunnlaugur og þriðji Birkir Fannar Steingrímsson.

Aftur varð Ragnar hlutskarpastur í öðrum riðli og næstir urðu Gunnlaugur og Hafsteinn. Ragnar var því í góðri stöðu fyrir þriðju og síðustu umferðina en óheppni varð honum að falli. Slitnaði bensíningjafarbarki með þeim afleiðingum að hann féll niður í sjötta sæti.  Gunnlaugur hafði nú sigur, Hafsteinn varð annar og Birkir þriðji.

Eftir fyrsta mótið er stigastaða ökumanna sem hér segir:
Gunnlaugur Jónasson, 26 stig
Ragnar Skúlason, 23
Hafsteinn Örn Eyþórsson, 19
Birkir Fannar Steingrímsson, 12
Ómar Abrahamsson, 12
Fannar Þór Cray, 8
Ingólfur Örn Sigurbjörnsson, 5

Sigurvegari dagsins, Gunnlaugur Jónasson, á ferð í Kapelluhrauni.
Sigurvegari dagsins, Gunnlaugur Jónasson, á ferð í Kapelluhrauni. Ljósmynd/Arnar Leví Marísson
Frá keppni í fyrstu umferð Íslandsmótsins í körtuakstri í Kapelluhrauni.
Frá keppni í fyrstu umferð Íslandsmótsins í körtuakstri í Kapelluhrauni. Ljósmynd/Arnar Leví Marísson
mbl.is