Lokamótið verður rafmagnað

Verðlaunaafhendingin í París var mögnuð. Mislitum smámiðum rigndi niður yfir …
Verðlaunaafhendingin í París var mögnuð. Mislitum smámiðum rigndi niður yfir verðlaunapallinn.

Aðeins er eftir eitt mót af annarri keppnistíð rafbílaformúlunnar, Formula E, og stefnir í uppgjör tveggja ökumanna um heimsmeistaratitilinn í þessari íþrótt. Henni hefur vaxið ásmegin jafnt og þétt frá því að henni var ýtt úr vör með kappakstri í Peking 13. september 2014. Er nú svo komið að helstu stórborgir heims bjóða greinina velkomna og það til keppni í miðborgum, nú síðast í París og Berlín, á slóðum þar sem flestar akstursíþróttir aðrar hafa verið útlægar.

Það er rafbílaformúlunni styrkur að í henni keppa ökumenn sem gert hafa garðinn frægan í öðrum greinum akstursíþrótta, ekki síst úr formúlu-1. Um helgina fór næstsíðasta mót keppnistíðarinnar fram í Berlín. Þar varð hlutskarpastur Svisslendingurinn Sebastien Buemi hjá Renault sem á endanum sigraði af nokkru öryggi.

Með sigri Buemi er ljóst að í algjört einvígi stefnir milli hans og Brasilíumannsins Luca di Grassi hjá Audi Sport Abt í lokamótinu, sem fram fer í Battersea Park á miðborgarsvæði London 2. og 3. júlí næstkomandi. Aðeins einu stigi munar á þeim í titilslagnum, Grassi er með 141 stig og Buemi 140. Báðir eru fyrrverandi keppendur í formúlu-1.

Buemi missti afar naumlega af titlinum í fyrra en segir það styrkja sig fyrir lokamótið, að Renault e.dams hefur ákveðið að halda honum áfram fyrir tímabilið 2016/17, ásamt Nicolas Prost. Færðu þeir liðinu titil liðanna í fyrra og eru einnig í forystu í þeirri keppni í ár, með 202 stig gegn 191 stigi Audi Sport. „Ég er mjög einbeittur í því að næla í titilinn í ár og það er mikil hvatning að vita að hér verð ég áfram á næsta ári,“ segir Buemi.

„Jafnara gat það ekki verið fyrir lokamótið, nú er allt opið í London og veðráttan þar mun ráða miklu um hvernig fer,“ sagði di Grassi eftir kappaksturinn í Berlín. Hvor þeirra Buemi hefur unnið þrjú mót í ár. Di Grassi í Putrajaya í Indlandi, Long Beach í Kaliforníu og París. Þá varð hann í öðru sæti í Peking og Punta del Estre. Buemi hefur aftur á móti sigrað í Peking, Punta del Este og Berlín, ásamt því að verða í öðru sæti í Mexíkó og Buenos Aires.

Uppselt var á kappaksturinn í Berlín og þótti mótið takast í alla staði einstaklega vel. Einn af ráðamönnum borgarinnar, Cornelia Yzer, sagði rafbílaformúluna „vera rafmagnaða“ og hefði hún unnið hug og hörtu borgarbúa á methraða.

Í Berlín börðust Buemi og Frakkinn Jean-Eric Vergne í miklu návígi á fyrstu hringjunum. Komst Buemi fram úr eftir tvo hringi og lét ekki forystuna af hendi eftir það. Þjóðverjinn Daniel Abt hjá Audi Sport Abt varð á endanum annar en reyndi að hleypa liðsfélaganum di Grassi fram úr á lokahringnum til að styrkja hann í titilslagnum. Það gekk ekki eftir og varð Grassi þriðji í mark.

Í titilslagnum er breski ökumaðurinn Sam Bird hjá DS Virgin Racing Formula E Team þriðji með 82 stig. Í fjórða sæti Jerome d' Ambrosio hjá Dragon Racing með 64 stig, fimmti Prost með 62 og sjötti Stephane Sarrazin hjá Venturi Formula E Team með 59 stig.

Nefndur Nicolas Prost hjá Renault er sonur formúlumeistarans fjórfalda, Alain Prost. Hann varð fjórði í Berlín. Vergne, sem hóf keppni af ráspól, varð fimmti og fyrrverandi formúluökuþór, Nick Heidfeld, sjöundi. Tíundi varð svo annar úr þeirri átt, Frakkinn Stephane Sarrazin. Aðrir fyrrverandi ökumenn úr formúlu-1 sem komið hafa við sögu í ár eru Jacques Villeneuve, Bruno Senna og Nelson Piquet, en hann varð fyrsti meistari rafformúlunnar í fyrra. Með ævintýralegum hætti vann hann sig úr 16. sæti í það sjöunda og vann titilinn með einu stigi fleira en fyrrnefndur Buemi.

Villeneuve varð heimsmeistari í formúlu-1 1997 en náði aldrei tökum á rafbílnum og hætti keppni eftir þrjú mót.

Ein kona er meðal ökumanna, hin svissneska Simona de Silvestro, og varð hún í níunda sæti af 18 keppendum, aðeins 12,4 sekúndum frá fyrsta sæti. Er það jafnt hennar besta en hún varð í sama sæti í mótinu sem fram fór í Long Beach í Kaliforníu í apríl.

Keppnisbílunum í rafbílaformúlunni svipar að útliti mjög til bíla formúlu-1 en meginmunurinn er að þeir eru miklu hljóðlátari þar sem þeir ganga aðeins fyrir rafmagni. Tíu lið taka þátt en hefur fækkað í níu eftir að lið Jarno Trulli, formúluökumannsins fyrrnefnda, dró sig í hlé. Keppt er jafnan á 2-3 km brautum í borgarmiðju. Tvær æfingar fara fram að morgni keppnisdags, sú fyrri í 45 mínútur og sú seinni í 30 mínútur. Hefur hver ökumaður tvo bíla til afnota með samtals 200 kílóvöttum. Tímataka hefst um hádegisbil og stendur í klukkustund. Ökumönnum er skipt upp í fjóra hópa með fimm í hverjum og hefur hver hópur sex mínútur til að setja sinn besta brautartíma. Mega ökumenn aðeins nota einn bíl í tímatökunni en hafa áfram 200 kW af afli. Fimm hraðskreiðustu ökumennirnir úr fyrstu umferð halda áfram í aðra lotu og aka þar einn og einn í einu og keppa um fimm fremstu sætin á rásmarkinu.

Sjálfur kappaksturinn stendur yfir í um það bil 50 mínútur og er ökumönnum skylt að taka þjónustuhlé til að skipta um bíl. Í þessum stoppum er ekki leyfilegt að skipta um dekk nema það hafi sprungið undir eða skemmst af völdum áreksturs. Í keppnisham er hámarksafl bílanna takmarkað við 170 kW. Stig fyrir árangur eru veitt með sama hætti og í formúlu-1, þ.e. tíu fremstu ökumenn fá stig.

Á fyrsta ári voru liðunum öllum lagðir til keppnisbílar sem fyrirtækið Spark Racing Technology smíðaði og nefndir voru Spark-Renault SRT 01E. Undirvagninn hannaði keppnisbílasmiðurinn Dallara og McLaren þróaði rafmótorinn sem í bílunum var. Hann er sá sami og í P1-ofursportbíl McLaren. Rafhlöðukerfið þróaði dótturfélag formúluliðsins Williams, Williams Advanced Engineering, og einnig fimm hraða Hewland-gírkassa. Undir öllum bílunum hafa svo verið dekk frá Michelin. Ekki vantaði rafbílinn snerpu því hann komst úr kyrrstöðu í 100 km/klst. ferð á þremur sekúndum en hámarkshraði hans var 225 km/klst. Vegna loftviðnáms og suðs í rafmótornum stafar 80 desibela hávaði frá bílnum en til samanburðar framleiðir venjulegur fólksbíll um 70 db hávaða.

Fyrir yfirstandandi keppnistíð var tæknireglum breytt til að opna fyrir þátttöku fleiri aflrásaframleiðenda. Þeir geta framleitt rafmótor, straumbreyta, gírkassa og kælikerfi. Undirvagninn og rafgeymar eru óbreyttir frá í fyrra. Átta framleiðendur voru viðurkenndir til að sjá liðum fyrir aflrásum í ár, en Andretti, Abt Sportsline, Venturi Automobiles og Virgin Racing Engineering völdu að framleiða sínar eigin. Því til viðbótar buðu liðin Motomatica, NEXTEV TCR og Renault Sport öðrum liðum upp á að nýta sér þeirra aflrásir.

Eins og áður segir er rafformúlan aufúsugestur í stórborgum heims. Til marks um það hafa mótin á yfirstandandi keppnistíð verið meðal annars háð í Peking, Buenos Aires, Mexíkó, París, Berlín og London. Af óviðráðanlegum ástæðum varð að fella niður keppni sem fyrirhuguð var í Moskvu 4. júní. Reynt var að flytja mótið í staðinn, m.a. til Mónakó, en fyrirvarinn var alltof stuttur. Á næsta ári er jafnvel möguleiki á að keppt verði í sjálfri New York. Á sínum tíma létu margir í ljós efasemdir um að keppni á nær hljóðlausum rafbílum ætti framtíð fyrir sér. Það hefur afsannast og er óhætt að segja, að rafbílaformúlan lifi bara góðu lífi og batnandi. Fær íþróttin vaxandi rými í fjölmiðlum en fyrir þá sem ekki hafa aðgang að sjónvarpsútsendingum frá rafformúlunni geta þeir hinir sömu fylgst með keppni í beinni útsendingu á vefnum youtube.com.

agas@mbl.is

Keppendur rétt eftir ræsingu rafformúlunnar í París fyrr í þessum …
Keppendur rétt eftir ræsingu rafformúlunnar í París fyrr í þessum mánuði. Fremstur fer Luc di Grassi á rauðgula Audi Sport Abt-bílnum.
Hnífjöfn keppni á fyrstu hringjunum í Berlín sl. laugardag. Sebastian …
Hnífjöfn keppni á fyrstu hringjunum í Berlín sl. laugardag. Sebastian Bumi á blágula Renaultinum að taka forystuna af Jean-Eric Vergne.
Keppendur rétt eftir ræsingu rafformúlunnar í París.
Keppendur rétt eftir ræsingu rafformúlunnar í París.
Frá keppni rafformúlunnar í París.
Frá keppni rafformúlunnar í París.
Frá keppni rafformúlunnar í París.
Frá keppni rafformúlunnar í París.
Frá keppni rafformúlunnar í París.
Frá keppni rafformúlunnar í París.
Sebastian Buemi og Nicolas Prost aka í rafbílaformúlunni fyrir Renault.
Sebastian Buemi og Nicolas Prost aka í rafbílaformúlunni fyrir Renault.
Verðlaunaafhendingin í París var mögnuð. Hér fleygir sigurvegarinn Sebastien Buemi …
Verðlaunaafhendingin í París var mögnuð. Hér fleygir sigurvegarinn Sebastien Buemi húfu til áhorfenda sem margir vildu að hún flygi til sín.
Can-can dansarar sýndu kúnstir á rafbílaformúlunni í París.
Can-can dansarar sýndu kúnstir á rafbílaformúlunni í París.
Sebastien Buemi (í miðju) fagnar með liðsmönnum sínum eftir sigur …
Sebastien Buemi (í miðju) fagnar með liðsmönnum sínum eftir sigur í rafformúlunni í Berlín. AFP
Sebastien Buemi fremstur í flokki á rafbíl Renault í Berlín …
Sebastien Buemi fremstur í flokki á rafbíl Renault í Berlín 21. maí. AFP
Lucas Di Grassi fagnar sigri í rafformúlunni.
Lucas Di Grassi fagnar sigri í rafformúlunni. AFP
Rafformúlubílarnir eru býsna líkir bílum í formúlu-1. Hér er Lucas …
Rafformúlubílarnir eru býsna líkir bílum í formúlu-1. Hér er Lucas Di Grassi á bíl ABT Schaeffler Audi í París. AFP
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: