Fékk loks afhenta Teslu X

Tesla X.
Tesla X. Mynd/Wikipedia

Norðmaðurinn Olav Midttun er í dag glaður maður eftir að hafa loksins fengið afhenta, fyrstur Evrópubúa, Teslu af tegundinni X. Midttun pantaði bifreiðina árið 2012 og hefur í fjögur ár beðið í ofvæni með pöntunarnúmerið 0001.

„Ég var að vafra um netið árið 2012 og skoðaði þessa tegund,“ segir Midttun í samtali við norska miðilinn E24

Þann 13. febrúar 2012 var tegundin kynnt og hálfu ári seinna var hægt að panta bifreiðina. Hafði hann þá samband við söluaðila Tesla í Noregi og pantaði eintak.

Midttun segist nú ætla í langan bíltúr með konunni. „Við ætlum að keyra til Kristiansund [bær í Suður-Noregi. innsk.blm.]. Við vildum þessa bifreið vegna langdrægni hennar. Við munum oft keyra upp í sumarbústað og nú höfum við nóg pláss. Síðan situr maður mjög hátt í þessum bíl, sem er jákvætt,“ segir Midttun og bætir við að hann komi nú til með að ferðast minna með flugvélum. 

„Ég vonast til að geta alveg hætt að ferðast með flugvél. Vissulega gæti ég þurft að ferðast yfir hafið. Það er erfitt að keyra á vatni, þannig að maður endar sennilega á því að fljúga eitthvað,“ segir Midttun skælbrosandi í samtali við E24.

Sjö Tesla X bifreiðar voru afhentar í Noregi í dag en rafmagnsbílar Teslu eru afar vinsælir þar í landi. 

Alls hafa um 20 þúsund manns á heimsvísu pantað Teslu X. Bíllinn er fjórhjóladrifin og er með sjö sæti. Bíllinn er með 539 hestöfl og kemst upp í 100 km hraða á aðeins 3,4 sekúndum. Ein hleðsla drífur um 489 kílómetra. Á hálftíma ofur-hleðslu drífur bíllinn 270 km. Verðið á bílnum byrjar í um 70 þúsund dollurum í Bandaríkjunum. 

mbl.is