Götubíll sem slær Formúlu 1 bílum við?

Sagan segir að Aston Martin AM-RB 001 verði nægilega öflugur …
Sagan segir að Aston Martin AM-RB 001 verði nægilega öflugur til að etja kappi við Formúlu-1 bíla.

Dularfull skilaboð hafa seytlað út frá Aston Martin um að ofurmannlegt ökutæki væri þar í smíðum og síðastliðinn miðvikudag var orðrómurinn staðfestur svo um munaði.

Þá var nýjasta afurð framleiðandans, Aston Martin AM-RB 001 afhjúpaður í höfuðstöðvunum í Gaydon og uppskar hann andköf, að því er kemur fram í fréttatilkynningu.

Sérlega kraftmikið samstarf

Bíllinn er afsprengi samstarfs milli Formúlu 1 keppnisliðs Red Bull og svo hins nafntogaða enska sportbílaframleiðanda og óhætt að segja að báðir aðilar hafi sitthvað fram að færa við hönnun og smíði bíls af þessu tagi. Helstu persónur og leikendur í verkefninu voru Adrian Newey, tæknistjóri og loftaflsfræðingur Red Bull, og þeir Marek Reihman, hönnunarstjóri Aston Martin og David King, sem stýrir sérsmíðadeild fyrirtækisins.

Götubíll með galið afl

Sagan segir að Aston Martin AM-RB 001 verði nægilega öflugur …
Sagan segir að Aston Martin AM-RB 001 verði nægilega öflugur til að etja kappi við Formúlu-1 bíla.


Kunnugir muna ef til vill eftir ofurbílnum Vulcan sem Aston Martin kynnti á síðasta ári. Til að setja hinn nýja ofurbíl í samhengi þá var uppleggið víst að smíða eitthvað í líkingu við þann rosa en taka hönnunina bara enn lengra út í öfgar. Þetta kann að hljóma fjarstæðukennt en þegar tölfræðin er skoðuð fyrir AM-RB 001 sést glögglega að þetta er hreint ekki svo mjög fjarri sanni.

Bíllinn mun vera knúinn miðlægri V12 vél og hlutfall afls og þyngdar verður nokkurn veginn 1:1. Bíllinn er að sögn um 1.000 kíló og lesendum hér með eftirlátið að reikna út fjölda hestafla. Hér er ekki verið að grínast.

Verðmiði í takt við bílinn

Undir- og yfirbygging eru úr koltrefjablöndu og lögunin er runnin undan rifjum Newey – hvers annars – og því eru engar ankannalegar vindskeiðar eða annar „óþarfi“ að flækjast fyrir utan á bílnum. Aston Martin hafa ekki fengist til að staðfesta verðmiðann en kunnugir segja útilokað að hann verði undir 2,5 milljónum Bandaríkjadala. Það er því tími til stefnu fyrir þá sem vilja byrja að safna því afhendingar á AM-RB 001 hefjast ekki fyrr en árið 2018, og einungis 150 bílar verða smíðaðir alls.

jonagnar@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: