Panamera fríkkar til muna

Ný kynslóð Porsche Panamera er feykivel heppnuð að útliti.
Ný kynslóð Porsche Panamera er feykivel heppnuð að útliti.

Það þekkja allir söguna um það þegar hugmyndin um fjögurra dyra Porsche var fyrst viðruð; „Það getur aldrei gengið og mun ganga af fyrirtækinu dauðu!“ sögðu efasemdaraddirnar. Síðan hefur framleiðandinn sent frá sér Cayenne og Panamera og sjá, þetta eru söluhæstu bílarnir í Porsche-fjölskyldunni.

Um sölutölurnar verður ekki deilt og næst á eftir Cayenne-jeppanum hefur hlaðbakurinn Panamera verið ein farsælasta gullnáma fyrirtækisins. En á meðan allir voru sammála um bílinn hvað varðaði aksturseiginleika og gæði ríkti ekki sami einhugur um útlitið. Sér í lagi þótti sumum afturendinn dálítið eins og hugmynd sem ekki var hugsuð til enda. Það vantaði þarna einhvern herslumun til að svipurinn gengi fyllilega upp. Nokkuð er síðan út spurðist að Porsche myndu kynna nýja kynslóð Panamera til sögunnar á alþjóðlegu bílasýningunni í París síðar á þessu ári og það hefur nú fengist staðfest, og það sem meira er, bíllinn er bráðfallegur útlits á alla kanta.

Leitað í smiðju „Neun-Elf“

Þjóðverjarnir í höfuðstöðvum Porsche í Zuffenhausen höfðu vit á því að leita ekki langt yfir skammt og byggja afturenda nýju kynslóðarinnar bersýnilega á krúnudjásninu sjálfu, Porsche 911. Afturljósin minna ekki lítið á 911 og sannarlega ekki leiðum að líkjast þar.

Framleiðandinn hefur aftur á móti ekki látið duga að flikka upp á útlitið heldur hefur ný lína af vélum verið í boði, hver annarri álitlegri. Grunngerðin er 2,9 lítra twin-turbo V6 vél sem skilar litlum 440 hestum/550Nm til hjólanna og það er allt upp á við þaðan í frá. Panamera Turbo verður til að mynda með 4,0 lítra twin-turbo V8 vél upp á 550 hestöfl og 770 Nm tog. Það gerir bílnum kleift – þrátt fyrir að vera stærri en síðasta kynslóð – að rjúka í 100 km/klst á 3,6 sekúndum.

Eitthvað segir okkur að París verði sérlega heillandi borg þegar bílasýningin gengur þar í garð í haust.

jonagnar@mbl.is

Ný kynslóð Porsche Panamera er feykivel heppnuð að útliti.
Ný kynslóð Porsche Panamera er feykivel heppnuð að útliti.
Ný kynslóð Porsche Panamera er feykivel heppnuð að útliti.
Ný kynslóð Porsche Panamera er feykivel heppnuð að útliti.
Ný kynslóð Porsche Panamera er feykivel heppnuð að útliti.
Ný kynslóð Porsche Panamera er feykivel heppnuð að útliti.
Ný kynslóð Porsche Panamera er feykivel heppnuð að útliti.
Ný kynslóð Porsche Panamera er feykivel heppnuð að útliti.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: