Samþykkir bótasamkomulag

Volkswagen Tiguan var meðal bíla sem prýddu salarkynni hluthafafundar VW …
Volkswagen Tiguan var meðal bíla sem prýddu salarkynni hluthafafundar VW í Hanover í júnímánuði. AFP

Dómari í Kaliforníu hefur gefið bráðabirgðasamþykki fyrir málamiðlun sem felur í sér að þýski bílsmiðurinn Volkswagen greiði 14,7 milljarða dollara í bætur vegna útblásturshneykslis.

„Að baki samkomulaginu liggur gríðarleg vinna og ég held að markmiðin hafi náðst,“ sagði Charles Breyer er hann kynnti niðurstöðu sína í héraðsdómstólnum í San Francisco í gær.

Sett hafði verið sem markmið að klára samninga um bætur til kaupenda Volkswagenbíla í Bandaríkjunum vegna útblásturssvindlsins fyrir haustið. Breyer dómari veitti deilendum frest til 18. október ril að komast að endanlegri niðurstöðu í málinu.

Bótafjárhæðin sem kemur í hlut kaupenda VW-bíla með svikabúnaðinum vestra jafngildir 1.783 milljörðum íslenskra króna.

Útblásturshneykslið snýst um það, að búnaði hafði verið komið fyrir í vélkerfum nokkurra módela dísilbíla Volkswagen er blekkti mengunarmæla. Raunveruleg losun þeirra á hættulegu nituroxíði reyndist margfalt meiri en uppgefið var og bandarísk lög kveða á um.

Aðeins lítið brot heildarfjölda bíla með búnað þennan var seldur í Bandaríkjunum, langflestir þeirra fóru á markað í Evrópu.

mbl.is