„Bílar, fólk og framtíðin“

Bílar, fólk og framtíðin verður haldin í Hörpu 17.nóvember.
Bílar, fólk og framtíðin verður haldin í Hörpu 17.nóvember.

Sú tækniþróun sem á sér stað varðandi framtíð bíla, umferðar- og öryggismála verður til umfjöllunar á ráðstefnu sem haldin verður í Hörpu 17. nóvember næstkomandi. Hún er ætluð fag- og áhugafólki. 

„Bílar, fólk og framtíðin er ráðstefna fyrir fagaðila, opinbera aðila og aðra sem tengjast bílgreininni, umhverfi hennar og umferðaröryggi,“ segir í tilkynningu. Ráðstefnan er haldin af Vista Expo í samstarfi við Samgöngustofu og Vegagerðina. Aðrir samstarfsaðilar ráðstefnunnar eru Bílgreinasambandið, innanríkisráðuneytið, Félag íslenskra bifreiðaeigenda og Samtök atvinnulífsins.

Áherslan verður lögð á að upplýsa um helstu tækninýjungar og framtíðaráform. Fjallað verður um hvernig best verður brugðist við þeim miklu breytingum sem framundan eru og svarað ýmsum spurningum, t.d. varðandi sjálfkeyrandi bíla, persónuvernd og hlutverk ökumanns framtíðarinnar.

„Þetta er í fyrsta skipti sem tekið er á heil­stæðan hátt á bíl­grein­inni, um­hverfi henn­ar, um­ferðarör­yggi, lagasetningu, innviðum og öðru sem málaflokkinn snertir. Markmiðið er að allir sem koma að umferð og umferðaröryggismálum hér á landi ræði þessa þróun og hvert við stefnum,“ segir í tilkynningunni. 

Bæði innlendir og erlendir fyrirlesarar verða á ráðstefnunni. Meðal þeirra má nefna Jean Todt forseta Alþjóða akstursíþróttasambandsins og sendiherra Sameinuðu þjóðanna í umferðaröryggismálum sem mun fjalla um umferðaröryggi framtíðarinnar, Gunnar Haraldsson hagfræðing sem fjallar um möguleg efnahagsleg áhrif og Tom Palmaerts framtíðarrýnir.

Nálgast má frekari upplýsingar um ráðstefnuna á heimasíðu hennar á netinu.

mbl.is