Volkswagen stærsti bílsmiðurinn

Volkswagen er söluhæsti bílafarmleiðandi heims frá áramótum til júníloka.
Volkswagen er söluhæsti bílafarmleiðandi heims frá áramótum til júníloka. AFP

Volkswagen tók fram úr Toyota sem stærsti bílaframleiðandi heims við lok fyrri hluta ársins og það þrátt fyrir þverrandi bílasölu í Bandaríkjunum vegna útblásturshneykslis.

Alls seldi Volkswagen 5,12 milljónir bíla frá áramótum til júníloka. Samkvæmt tilkynningu Toyota seldi japanski bílsmiðurinn 4,99 milljónir bíla á sama tíma.

Um er að ræða samdrátt upp á 0,6% frá fyrra ári í tilfelli Toyota. Aftur á móti er um 1,5% aukningu að ræða hjá þýska bílsmiðnum, VW.

Þetta er annað árið í röð sem Volkswagen er söluhæsti bílaframleiðandinn á miðju ári. Á seinni hluta ársins tók Toyota fram úr. Síðar kemur í ljós hvort fyrirtækið verður ofan á í árslok.

Þriðji stærsti bílsmiðurinn um mitt ár er General Motors (GM) sem seldi alls 4,76 milljónir bíla til júníloka. Í fjórða sæti er samsteypa Nissan og Renault með samtals 4,3 milljónir bíla. Þar af seldust 2,74 undir merkjum Nissan og 1,57 milljónir undir merkjum Renault.

mbl.is