Mest seldu bílar ársins í Evrópu

Volkswagen Golf í bíaturninum í bílsmiðju VW í Wolfsburg í …
Volkswagen Golf í bíaturninum í bílsmiðju VW í Wolfsburg í Þýskalandi. AFP
Volkswagen Golf er ekki bara mest seldi bíllinn í Noregi í ár, heldur er hann það einnig í Evrópu. Verulegur munur er á því hvernig aflrásir Norðmenn velja sér miðað við aðra Evrópubúa.

Í Evrópu er það bensín- og dísilvélar sem draga hlassið nokkurn veginn til helminga, en því er öðru vísi farið í Noregi. Af þeim 7.482 Golf sem nýskráðir voru á fyrri árshelmingi voru 930 búnir dísilvél en 1.598 bensínvél eingöngu. Tvíorku Golf (GTE) voru hins vegar 2.095 og hreinir rafbílar 2.859 (e-Golf).

Í sölutölum fyrir bíla annars staðar í Evrópu stingure fjarvera rafbíla af sölulistum í stúf. Norski bílamarkaðurinn er sér á báti en búist er við að hlutur rafbíla eigi eftir að aukast stórum á öðrum mörkuðum, það taki bara tíma fyrir þá að brjótast út úr viðjum vanans.

Á lista yfir tíu mest seldu bílamódelin í Evrópu eru merki frá átta bílsmiðum en þrjú sætanna koma í hlut bíla frá Volkswagen. Í Noregi á VW tvo fulltrúa meðal 10 söluhæstu. Þar er að finna bílamódel sem hvergi annars staðar finnast á topplistum, svo sem rafbílana e-Golf, Nissan Leaf og Mitsubishi Outlander.

Það er drifrásin sem ræður ferðinni í Noregi en til að mynda franskir, þýskir og ítalskir neytendur eiga langt í land með að líkjast frændum okkar í bílkaupum. Mestan skyldleika við norska markaðinn er að finna í Hollandi og Belgíu.

Af 10 mest seldu bílunum í Evrópu á fyrra árshelmingi seldust 1.736.814 eintök. Til samanburðar voru þau 27.402 í Noregi.

Söluhæstu bílar í Evrópu voru annars sem hér segir:

1 Volkswagen Golf 321.772
2 Renault Clio 211.139
3 Volkswagen Polo 204.227
4 Ford Fiesta 165.347
5 Opel Corsa 153.001
6 Nissan Qashqai 143.266
7 Peugeot 208 141.115
8 Skoda Octavia 139.213
9 Volkswagen Passat 128.877
10 Ford Focus 128.857


Söluhæstu bílar í Noregi til júníloka:

1 VW Golf 7.482
2 Mitsubishi Outlander 3.149
3 Volkswagen Passat 2.595
4 Nissan Leaf 2.592
5 Toyota Auris 2.450
6 Toyota Yaris 2.210
7 Toyota RAV4 2.090
8 Skoda Octavia 1.952
9 Audi A3 1.530
10 Mazda CX-5 1.352
mbl.is