Gætu skilið betur áhrif heilaristings: Gefur heilann til rannsókna í læknavísindum

Skotinn Dario Franchitti hefur ánafnað heila sinn rannsóknum í læknisfræði.
Skotinn Dario Franchitti hefur ánafnað heila sinn rannsóknum í læknisfræði.

Skoski kappakstursmaðurinn Dario Franchitti, sem um langt árabil hefur gert garðinn frægan í Bandaríkjunum, hefur ákveðið að gefa heilann í þágu vísindarannsókna eftir sinn dag. Væntir hann þess að það geti aukið þekkingu lækna á heilahristingi.

Franchitti hefur fjórum sinnum orðið bandarískur meistari í systurkeppni formúlu-1 þar í landi, svonefndum IndyCar-mótum. Þá hefur hann unnið hinn mikla kappakstur, Indianapolis 500, þrisvar sinnum. Slíka þrennu hafa aðeins 10 ökumenn afrekað í 100 ára sögu kappakstursins.

Í kappakstri 6. október 2013 í Houston varð hann fyrir alvarlegu óhappi á yfir 300 km/klst hraða. Bíll hans tókst á loft eftir samstuð við keppinaut og hafnaði á öryggisneti. Afleiðingin var brákaðir hryggjarliðir, ökklabrot og heilahristingur. Læknar sögðu honum að einn árekstur til viðbótar í keppni gæti leitt til varanlegra heilaskemmda. Tók hann ráðum þeirra og hætti kappakstri.

Dario er frá Bathgate í Vestur-Lothian í Skotlandi og hann sagði það hafa verið sér hvatningu að vinur og keppinautur að nafni Dale Earnhardt yngri hafði skömmu áður talað um að gefa heilann til vísindarannsókna er hann var að jafna sig eftir slys. „Ég ber mikla virðingu fyrir Dale. Þegar hann tilkynnti gjöfina fékk ég hugmyndina og ákvað að gera slíkt hið sama,“ sagði hann í viðtali.

Í dag glímir Franchitti við helti og minnistap og hefur hann ánafnað heilann svonefndum CTE- rannsóknum á krónískum áfallaheilakvillum sem er hrörnunarsjúkdómur sem ítrekuð höfuðhögg geta valdið. Slysið í Houston var eitt margra er hann varð fyrir á árangursríkum en krefjandi kappakstursferli.

Árið 2000 hlaut hann heilahristing og brákaði mjaðmagrind í kappakstursslysi og segir hann það hafa hrjáð sig andlega í tvö ár. „Gallinn við heilahristing er að skemmdirnar safnast upp. Ég hlaut nokkrum sinnum minniháttar hristing en hunsaði það og galt líklega fyrir það. Þegar læknarnir fóru yfir heilahristingssögu mína 2013, afleiðingarnar og hvers ég mætti vænta við eitt höfuðhögg til viðbótar varð ég skelkaður. Heppni mín var að læknir minn var hreinskilinn og opinskár og fastur á sínu. Ég virti skoðanir hans og ákveðni. Þegar hann sagði: „Ekki keppa oftar,“ svaraði ég einfaldlega læt það vera. Ég hafði marga fjöruna sopið og látið margan drauminn rætast. Að því leyti var ákvörðunin auðveldari,“ segir Dario Franchitti.

Skömmu fyrir óhappið afdrifaríka í Houston skildu Franchitti og eiginkona hans til 12 ára, leikkonan Ashley Judd. Í millitíðinni hefur hann selt fyrir margar milljónir punda hús í Sterlingshire sem þau Ashley endurbyggðu. Starfar hann sem ráðgjafi og þjálfari kappakstursmanna í Bandaríkjunum.

agas@mbl.is

Meðan allt lék í lyndi, Ashley Judd og Dario Franchitti …
Meðan allt lék í lyndi, Ashley Judd og Dario Franchitti með sigurlaunin fyrir Indianapolis 500 kappaksturinn sem Franchitti vann þrisvar.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: