Volkswagen stoppar smíði Golf

Lager af bílum frá Volkswagen og Audi á hafnarbakkanum í …
Lager af bílum frá Volkswagen og Audi á hafnarbakkanum í Pyeongtaek, 70 km suður af Seoul í Suður-Kóreu. AFP

Vegna deilu við tvo birgja hefur Volkswagen ákveðið að stöðva smíði á hinum vinsæla Golf í 10 daga í aðalsmiðju sinni í Wolfsburg í Þýskalandi. Færiböndin voru stöðvuð um helgina vegna yfirvofandi skorts á íhlutum og verða ekki ræst aftur fyrr en 29. ágúst.

Ársáætlunin í hættu?

Þetta ógnar áætlunum Volkswagen fyrir árið en úr smiðjunni í Wolfsburg hafa runnið 815.000 bílar það sem af er ári, þar af tæplega 500.000 Golf og Golf Sportsvan.

Birgjarnir tveir sem Volkswagen á í stríði við eru fyrirtækin Car Trim og Automobilguss. Hið fyrrnefnda framleiðir áklæði bílsæta fyrir VW og hið síðarnefnda íhluti í gírkassa. Hættu þau að senda vörur sínar til VW í byrjun ágúst og hefur það leitt til framleiðsluröskunar í ýmsum bílsmiðjum þýska risans. Saka fyrirtækin Volkswagen um að hafa rift ýmsum framleiðslusamningum án fyrirvara og án þess að greiða bætur.

Stöðva vinnu vegna offramboðs

Fyrir utan þetta hefur Volkswagen ákveðið að stöðva smíði á Golf í nokkra daga í október og desember vegna umframframleiðslu á módelinu. Alls er um að ræða stöðvun í átta daga, eða 4.-7. október og 19.-22. desember. Segir talsmaður VW verið að rétta framleiðsluna af fyrir fyrsta fjórðung næsta árs og ástæðan sé óvenjumikil smíði á Golf í sumar. Hafnaði hann því að ákveðið hefði verið að smíða 15.000 færri Golf en áætlanir í ársbyrjun kváðu á um.

Golf er langvinsælasti bíll Volkswagen. Frá því framleiðsla á honum hófst árið 1974 hafa selst á fjórða tug milljóna eintaka af bílnum.

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: