Gulur, rauður, grænn eða blár?

Frægur og fagurrauður Ferrari. Bjarni segir suma framleiðendur hafa ákveðna …
Frægur og fagurrauður Ferrari. Bjarni segir suma framleiðendur hafa ákveðna einkennisliti og geti þá stundum verið hættulegast, hvað endursölu snertir, að velja „venjulegan“ lit.

Lesendur kannast örugglega margir við það að verja löngum stundum á heimasíðum bílaframleiðenda og leika sér með forrit sem leyfir að lita og breyta draumabílnum.

Að finna réttu samsetninguna getur verið snúið: dregur lakkið fram réttu eiginleikana í útliti bílsins? Rímar innréttingin við ytra byrðið? Fríkkar bíllinn ef þakið eða húddið er í öðrum lit, eða felgurnar svartar frekar en silfurlitaðar? Gerir dökki liturinn bílinn of smáan á meðan sá ljósi lætur hann virðast of stór?

Fátt er fallegra en þegar réttur litur er valinn á réttan bíl, en rangur litur getur hér um bil eyðilagt útlit bílsins og gert glæsikerru eða kagga að furðufyrirbæri.

Bjarni Hjartarson bílahönnuður minnist eins góðs dæmis frá námsárum sínum á Ítalíu. „Í hverfinu bjó maður sem átti svartan Ferrari FF, og allt litað svart á bílnum sem lita mátti. Ég veitti því athygli að þarna fór þessi fallegi sportbíll, en enginn horfði á eftir honum. Bíllinn hvarf inn í umferðina, en hefði skorið sig úr ef hann hefði verið í meira æpandi lit. Kannski var þetta af ásetningi gert, og eigandi bílsins að leita eftir Ferrari aksturseiginleikunum frekar en Ferrari athyglinni.“

Hrædd við að elta tískuna

Þegar kemur að litavalinu segir Bjarni að hinn dæmigerði kaupandi nýs bíls láti oft praktísk atriði ráða ferðinni frekar en að leyfa eigin smekk og óskum að ráða för. „Ef maður kaupir bíl í vinsælasta tískulit líðandi stundar þá getur það gerst að eftir nokkur ár þyki liturinn ekki flottur lengur. Silfraður, grár og hvítur eru kannski frekar „leiðinlegir“ litir en þeir halda alltaf vinsældum sínum.“

Tískan getur samt farið í undarlega hringi í þessum málum eins og öðrum. „Hvíti liturinn hefur orðið meiri tískulitur síðustu ár en ekki er langt síðan hann þótti einn venjulegasti og mest óspennandi liturinn sem velja mátti á bíl. Síðust ár hefur t.d. BMW gert mikið af því að kynna nýjustu bílana sína á sýningum í hvítum lit,“ segir Bjarni og tekur undir þá vinsælu skýringu á þessari þróun að hvítur litur á tækjum frá Apple hafi mótað viðhorf almennings. „En uppgangur hvíta litarins hélst líka í hendur við vaxandi áherslur almennt á stílhreint útlit og hreinar línur, og gerðist það t.d. líka í innanhússhönnun að allt varð mjög hvítt og svart.“

Bjarni er á því að landsmenn mættu gera meira af því að láta hjartað frekar en heilann ráða litvalinu. Því fleiri litir sem eru á götunum því betra, segir hann, og bætir við að alltaf sé hægt að finna kaupanda þegar kemur að því að selja bílinn og jafnvel ef óvenjulegur liturinn þýðir að það tekur ögn lengri tíma að koma bílnum í verð þá sé kostnaðurinn við töfina varla svo mikill að vegi þyngra en sú ánægja sem fylgir því að aka um á bíl í draumalitnum. „Að vera í allt öðrum lit en allir hinir gæti jafnvel hjálpað til að láta bílinn skera sig úr hópnum á bílasöluplaninu.“

Litir sem fela óhreinindin

Að fylgja skynseminni snýr þó ekki bara að endursölumöguleikum heldur geta ákveðnir litir kallað á meiri eða minni þrif ef halda á bílnum fallegum. „Að kaupa svartan bíl er stór ákvörðun og krefst þess að vera duglegur að þrífa og bóna. Litir eins og hvítur, silfraður eða gylltur fela skítinn hins vegar alveg svakalega vel,“ segir hann. „Mattir litir komu inn á tímabili en ég held að sú tíska sé að verða búin. Er mjög erfitt að hugsa vel um möttu bílana og oftast að með þeim fylgir sérstakur bæklingur sem fjallar gagngert um viðhaldið á lakkinu.“

En síðan eru ákveðnir litir svo nátengdir vissum bílum að það getur verið áhættusamast af öllu að víkja frá hefðinni, jafnvel ef á að velja „venjulegan lit“. „Það er t.d. rosalega djarft að kaupa Ferrari í öðrum lit en rauðum, því mikill meirihluti kaupenda virðist ekki getað hugsað sér þá bíla í öðrum lit.“

Þeir sem eru ekki vissir í sinni sök ættu að íhuga að halda sig við einkennisliti hvers framleiðanda. Útskýrir Bjarni að hönnuðir miði oft við tiltekinn lit í hönnunarferlinu og er það því litur sem ætti að leyfa útliti bílsins að njóta sín sérstaklega vel. „Þessir litir eiga rætur sínar í árdögum kappakstursíþróttanna þar sem hver þjóð hafði sinn lit á bílunum. Rauður var litur Ítalíu, silfraður og hvítur litur Þýskalands, japönsku bílarnir hvítir og rauðir eins og fáninn og þeir bresku í „British racing green“. Hefðin hefur veri svo lífseig að enn þann dag í dag tengir maður t.d. silfraða litinn við Mercedes Benz, rauða litinn við framleiðendur eins og Alfa Romeo og Ferrari og þann græna við Aston Martin.“

Völd eða ástríðuhiti?

Litur getur líka dregið fram ákveðin blæbrigði og sent skilaboð til þeirra sem sjá bílinn. „Svarti liturinn er „elegant“, staðfastur og tengdur völdum og lúxus. Þetta er liturinn sem við veljum á limosínur og ráðherrabíla og það þætti saga til næsta bæjar ef forsetinn æki um á gulum bíl.“

Sumum gæti þótt rauði liturinn gera bíl kvenlegan. „En ég tengi rauða litinn meira við ástríðu. Mjög áberandi litir eins og t.d. appelsínugulur eða skærgrænn ganga síðan oft ekki upp á venjulegum bílum og kalla á svakalega sportbíla eins og Lamborghini eða Ferrari.“

Þeir sem vita ekki alveg í hvorn fótinn á að stíga í litavalinu ættu að geta huggað sig við að framleiðendurnir eru búnir að fara vandlega yfir alla valkostina og þeir litir og samsetningar sem eru í boði eru engin tilviljun. „Hönnuðir eru búnir að liggja yfir lita- og efnisvali í marga mánuði og þrengja hringinn í kringum þá liti sem standa á endanum til boða.“

Von á brúnum tónum

Bjarni reiknar með því að á næstu misserum megi fara að sjá nokkra nýja liti í umferðinni. „Bláir tónar, grænblár og mintulitur hugsa ég að verði vinsælli, og ólíklegasta stjarnan er brúni liturinn eða öllu heldur ýmsir brúnir- og bronstónar. Ég er hrifinn af brúna litnum, þó að „kúkabrúnn“ bíll verði seint fallegur. Brúnir tónar fela óhreinindi og með réttu sanseringunni getur brúnn bíll verið mjög glæsilegur. Porsche er til dæmis farið að sýna marga bílana sína í brúnum lit í auglýsingum.“

„Að kaupa svartan bíl er stór ákvörðun og krefst þess …
„Að kaupa svartan bíl er stór ákvörðun og krefst þess að vera duglegur að þrífa og bóna. Litir eins og hvítur, silfraður eða gylltur fela skítinn hins vegar alveg svakalega vel,“ segir Bjarni Hjartarson bílahönnuður. mbl.is/Kristinn
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: