Renault Talisman bíll ársins 2016

Renault Talisman er bíll ársins í ár.
Renault Talisman er bíll ársins í ár.

Renault Talisman var í gær kjörin Bíll ársins 2016 af fimm manna dómnefnd Bandalags íslenskra bílablaðamanna (BÍBB). Í ár kepptu 36 bílar til úrslita sem er nokkru fleiri bílar en í fyrra þegar þeir voru þrjátíu.

Keppt var í sex flokkum; flokki minni fólksbíla, stærri fólksbíla, jepplinga, jeppa, pallbíla og sportbíla. Í flokki minni fólksbíla fékk Opel Astra flest stig, Renault Megane varð í öðru sæti og Suzuki Baleno í því þriðja.

Í flokki stærri fólksbíla varð Renault Talisman hlutskarpastur. Í öðru sæti varð Mercedes Benz E-Class og því þriðja VW Passat GTE tengiltvinnbíll.

Í flokki jepplinga varð VW Tiguan hlutskarpastur, annar varð Kia Sportage og Honda HRV í því þriðja.

Í flokki jeppa hlaut Audi Q7 e-tron flest stig, BMW X5 PHEV næst flest og loks Lexus RX 450h.

Í pallbílaflokki sigraði Nissan Navara örugglega með langflest stig. Í öðru sæti varð Toyota Hilux og Mitsubishi L200 í því þriðja.

Í flokki sportbíla sigraði Ford Focus RS, í öðru sæti varð VW Golf GTI Clubsport og Lexus RC í því þriðja.

Áður en dómnefndin lýsti kjöri á Bíl ársins 2016 voru allir bílar prófaðir við réttar aðstæður í samræmi við notkunarhildi. Þannig fóru lokaprófanir á fólksbílunum fram á Kvartmílubrautinni í Hvassahrauni þar sem hverjur bíl voru gefin lokastig þar sem tekið var á tólf mismunandi þáttum.

Jepparnir, jepplingarnir og pallbílarnir voru prófaðir utan höfuðborgarsvæðisins þar sem þeir voru teknir til kostanna við erfiðar aðstæður og stig gefin í samræmi við frammistöðu þeirra í jafnmörgum flokkum og heildarniðurstaða fengin. Á grundvelli stigagjafarinnar fékkst hæsta einkunn og hana hlaut Renault Talisman. Næst flest stig hlaut Audi Q7 e-tron og BMW X5 PHEV þriðju flest.

mbl.is