Bíllinn klár fyrir veturinn

Guðfinnur Þór Pálsson.
Guðfinnur Þór Pálsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þegar veturinn gengur í garð er bíllinn sannkallaður bjargvættur. Í honum geta ökumaður og farþegar ferðast í hlýju rými á mjúkum sætum þótt úti sé snjór og kuldi.

En það verður að hugsa vel um bílinn og tryggja að hann sé klár fyrir veturinn. Að lenda í vandræðum á vegum úti í slyddu og byl er ekkert grín, og ef vanrækt er að koma öllu í horf fyrir snjó- og hálkudagana getur verið aukin hætta á slysum.

Guðfinnur Þór Pálsson er framkvæmdastjóri þjónustusviðs hjá Bílabúð Benna. Hann segir brýnt að huga tímanlega að ástandi dekkjanna og setja vetrardekkin undir bílinn fyrr en seinna. „Fólk ætti ekki að láta fyrsta snjódaginn koma sér að óvörum,“ segir hann og bætir við að þegar taki að styttast í snjó og hálkutímann ætti að láta fagmenn skoða dekkin. „Ekki mega vera minna en 3 mm eftir af mynstri til að dekkin teljist lögleg. Dekk sem standa nálægt því í upphafi vetrar eru auðvitað ekki gott innlegg í vetrarundirbúning bílsins.“

Það fer síðan eftir því hvar fólk býr og hvernig bíllinn er notaður hvers konar vetrardekk henta best. „Á höfuðborgarsvæðinu er minni þörf fyrir nagla og margir velja að aka á svokölluðum heilsársdekkjum eða á harðskeljadekkjum sem valda ekki sama sliti og svifryksmengun og nagladekkin en veita samt mjög gott grip,“ segir Guðfinnur, en leyfilegt er að hafa bíla á nagladekkjum frá 1. nóvember til 14. apríl ár hvert.

Einnig er áríðandi að halda dekkjunum hreinum. Alls kyns óhreinindi af veginum safnast upp í mynstri dekkjanna svo að gripið minnkar. „Nóg er að úða tjöruhreinsi á dekkin og skola síðan með vatni. Þetta ætti að gera nokkrum sinnum yfir veturinn. Ef lagt er í langferð yfir heiðar við vetraraðstæður er hreinsun dekkja með tjöruhreinsi nauðsynlegur undirbúningur bílsins.“

Þurfi að kaupa ný dekk segir Guðfinnur að ódýrustu kaupin séu ekki alltaf þau hagstæðustu. „Bílabúð Benna flýtur inn Toyo-dekkin og hefur framleiðandinn lagt í mikla rannsóknarvinnu og prófanir á dekkjunum. Kaupandinn getur því treyst því að dekkin virki vel og skili því veggripi sem til er ætlast. Vandaðri dekk hafa líka mun betri endingu en þau ódýrustu, og eru yfirleitt hagkvæmari kaup til lengri tíma litið.“

Rafmagn og frostþol

Eftir því sem rafgeymar verða eldri verða þeir viðkvæmari fyrir frosti. Segir Guðfinnur að það ætti að vera hluti af undirbúningi bílsins fyrir veturinn að skoða ástand rafgeymisins, og einnig að mæla frostþol kælikerfisins. „Vökvinn í kælikerfinu missir smám saman frostþolið og gera framleiðendur ráð fyrir að skipt sé um vökva á nokkurra ára fresti. Að mæla ástand rafgeymis og frostþol kælikerfis er ekki flókin aðgerð,“ segir hann. „Ef bíllinn er kominn nálægt þjónustuskoðun eða smurþjónustu er um að gera að nýta tækifærið og láta yfirfara ástand bílsins fyrir veturinn. Það einfaldlega mæðir meira á bílum yfir veturinn.“

Þegar snjórinn og rigningin dembast niður í skammdeginu verður líka að tryggja að ökumaður hafi gott útsýni í allar áttir. Segir Guðfinnur hluta af undirbúningi bílsins fyrir veturinn að yfirfara rúðuþurrkur, fylla á rúðuvökvann og hafa góða sköfu til taks. „Svo er gott að gæta þess að framrúðan sé ekki kámug, þannig að sem minnst trufli útsýnið, og tryggja að öll ljós séu í lagi. Það er um að gera að nota góð hreinsiefni í rúðupissið eins og til dæmis Rainx Washer Fluid sem er töfraefni sem sett er í rúðuefnið.“

Síðan fer það eftir því hvar og hvernig bíllinn er notaður hvaða útbúnað ætti að hafa um borð. „Í ferðalögum út á land getur lítil skófla verið mjög gagnleg, og einnig gott að vera með dráttartóg í skottinu og vita hvernig á að tengja tógina og hvar. Vasaljós getur komið í góðar þarfir og óvitlaust er að hafa líka hleðslusnúru fyrir snjallsímann.“

ai@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: