Lúxusbáturinn AM37 frumsýndur í Mónakó

Sportbílasmiðurinn Aston Martin er jafnvígur á láði sem legi.
Sportbílasmiðurinn Aston Martin er jafnvígur á láði sem legi.

Þó blaðið sem þú heldur á sé helgað bílum þá er það nú svo að hér á bæ geta menn heillast af farartækjum hverskonar og því ekki úr vegi að nefna nýlegt tryllitæki – ekki síst þar sem merkið er Aston Martin, góðkunningi bílaáhugamanna. Þessi enski lúxusfarartækjaframleiðandi kynnti nýlega munaðarfleytuna AM37 á snekkjusýningunni árlegu í Mónakó og vakti hann þar talsverða athygli, eins og fram kemur í tilkynningu.

Nóg af hestöflum og öðrum staðalbúnaði

Í tilkynningunni kemur einnig fram að báturinn, sem er 37 fet á lengdina, sé hannaður og smíðaður í samstarfi við Quintessence Yacht og svo Mulder Design. Áhugasamir geta valið um þrenns lags vélarkosti, hvern öðrum áhugaverðari. Fyrst er að nefna 370 hestafla Mercury-díselvél, þá 450 hestafla bensínvél og loks er í boði að taka AM37S sem býr yfir heilum 520 hestöflum.

Lúxusinn og efnisvalið er að sama skapi tilkomumikið, hvert sem litið er. Dekkið er lagt dýrasta harðviði og ef sólskinið yfir Miðjarðarhafinu verður of ágengt er hægt að smella upp þaki úr koltrefjum. Það þýðir að ekki þarf að væsa um farþegana (báturinn rúmar mest 8 manns) né fokdýra innviðina en þar eru öndvegisleður og koltrefjar í aðalhlutverki. Meðal staðalbúnaðar er rúm sem má fella inn og fela, eldunaraðstaða með kaffivél og ísskáp og loks lítið salerni.

Það eina sem ekki fæst uppgefið, samkvæmt tilkynningunni, er verðið. Til að grennslast fyrir um það þarf að panta viðtal hjá sölufulltrúa Aston Martin. Með hliðsjón af vettvangi kynningarinnar – Mónakó – má þó gefa sér að vér daglaunamenn séum ekki í markhópnum.

jonagnar@mbl.is

Munaðarfleytan AM37.
Munaðarfleytan AM37.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: