Brunavélin verði bannfærð frá 2030

Þjóðverjar vilja banna bílvélar með brunahreyfli.
Þjóðverjar vilja banna bílvélar með brunahreyfli.

Þýsk yfirvöld setja ekki traust sitt á að ívilnanir til kaupenda mengunarfrírra bíla leiði til verulegrar aukningar á innleiðingu slíkra bifreiða þar í landi.

Hefur Sambandsráðið, efri deild þýska þingsins, samþykkt ályktun þar sem hvatt er til þess að bílvélar með brunahreyfli verði bannaðar úr umferðinni frá og með árinu 2030.

Mengunarfrír bíll eða enginn bíll, takk fyrir

Þaðan í frá komast neytendur ekki hjá því að kaupa mengunarfría bíla, annaðhvort rafbíla eða vetnisbíla. Hefur sambandsráðið lagt að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) að grípa til banns af þessu tagi á yfirráðasvæði sínu öllu, í 28 löndum Evrópu. Og þar sem algengt er að þýskar reglur móti lagasetningu í ESB þykja líkur á að þetta geti orðið að veruleika.

Sambandsráðið ályktaði enn fremur að framkvæmdastjórn ESB endurskoðaði skattastefnu sína og hvernig beita mætti henni til að stuðla að auknum mengunarlausum samgöngum. Í hverju það felst liggur ekki fyrir en gæti þýtt verulegar ívilnanir til kaupa á bílum sem skila ekki frá sér gróðurhúsalofti. Sömuleiðis gæti það þýtt að upprættar yrði niðurgreiðslur til kaupa á dísilbílum í Evrópu.

Beygur í bílabransamönnum

Bílaframleiðendur hafa nú þegar áhyggjur af að harðnandi kröfur um losun gróðurhúsalofts gætu gert út af við dísilvélina. Neytendur virðast þó ekki deila þeim áhyggjum algjörlega því dísilbílar eru enn sem komið er uppistaðan í nýskráningum bíla á svæði ESB. Að vísu minnkaði sala þeirra ört í nokkrum löndum í ágústmánuði. Er það að nokkru leyti rakið til áhrifa útblásturshneykslisins sem við Volkswagen er kennt.

Frekari áhrif þess og auknar ívilnanir, að ekki sé talað um tillöguna um bann við brunahreyflum, gætu þýtt að Evrópubúar velji sér annaðhvort raf- eða vetnisbíl næst þegar þeir fjárfesta í nýrri rennireið. agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: