Munaði 100 þúsundum að kaupa á netinu

Dekkin sem um ræðir. Ólafur sparaði sér 100 þúsund krónur …
Dekkin sem um ræðir. Ólafur sparaði sér 100 þúsund krónur á að panta dekkin erlendis frá. Mynd/Ólafur Nielsen

Stór útgjaldaliður hjá mörgum fjölskyldum kemur á haustin eða í byrjun vetrar þegar skipt er um dekk og vetrardekk sett undir bílinn. Einn þeirra sem sá fyrir talsverð útgjöld vegna þessa er Ólafur Nielsen, framkvæmdastjóri Kolibri. Þegar hann sóttist eftir tilboðum í dekkjaumgang á 19“ borgarjeppa sem hann á kom upp úr krafsinu að uppsett verð hér á landi var 240 þúsund fyrir umganginn. Með því að panta þau á netinu sparaði hann sér aftur á móti 100 þúsund krónur.

Í samtali við mbl.is segir Ólafur að hann hafi alltaf verið duglegur að gera verðsamanburð á vörum hér á landi og þeim sem fást á netinu. Þannig hafi hann keypt hjól erlendis fyrr á árinu og áður skíði sem hann hafi sparað talsvert á. Segir Ólafur að honum hafi blöskrað verðmunurinn og því ákveðið að skoða þetta þegar kom að dekkjaskiptum.

Bættu Íslandi við listann strax

Eftir stutta leit fann hann vefverslun  í Bretlandi. Eins og oft er staðan sendi verslunin þó ekki til Íslands. Ólafur sendi þeim því bréf hvort hægt væri að senda til Íslands og var Íslandi mjög fljótt bætt í lista yfir viðskiptalönd. Með því tekur verslunin virðisaukaskatt í Bretlandi af dekkjunum við söluna úr landi og við það fæst hagstæðara verð.

Nákvæmlega sömu dekk og Ólafur hafði fundið hér á landi fengust fyrir tæplega 690 pund með sendingakostnaði sem var 150 pund. Dekkin kostuðu því samtals um 98 þúsund krónur, auk þess sem virðisaukaskattur og vörugjöld bættust við hér á landi. Skatturinn og gjöldin námu 42 þúsund krónum og samtals voru dekkin því á 140 þúsund krónur komin hingað til lands og tollafgreidd.

Ólafur Örn Nielsen
Ólafur Örn Nielsen

Ólafur segir að allt ferlið hafi tekið um vikutíma, en þar af var sendingartíminn þrír dagar. Um er að ræða Continental-vetrardekk undir 19“ borgarjeppa.

Venjan er hátt verð en svo afsláttur

Tekur Ólafur fram að vitanlega sé hægt að óska eftir afslætti hér á landi og venjulega fæst einhver slíkur. Honum finnist aftur á móti skrítið að íslensk verslun birti ekki það verð sem vörur séu í raun seldar á. „Normið er að birta hátt verð en svo er alltaf einhver afsláttur,“ segir Ólafur. Hann tekur þó fram að þrátt fyrir nokkur tilboð sem hann hafi fengið hafi verðið í vefversluninni alltaf verið mun lægra.

Þá skal það einnig tekið fram að hægt er að fá mörg mismunandi dekk, undir mismunandi stærðir bíla og getur verið talsverður munur þar á. Dekkjaumgangur undir lítinn fólksbíl er þannig mun ódýrari og líklegt að sparnaðurinn við að kaupa erlendis frá verði þar með minni eða enginn vegna flutningskostnaðar og tollafgreiðslugjalda.

mbl.is

Bloggað um fréttina