Vistvænir bílar eru í stórsókn

„Sala vistvænna bíla hefur aukist gríðarlega mikið frá í fyrra. …
„Sala vistvænna bíla hefur aukist gríðarlega mikið frá í fyrra. Markaðurinn er að stækka en þessum bílum hefur líka verið rosalega vel tekið. Svo hafa stjórnvöld sýnt þessum málum áhuga,“ segir Friðbert Friðbertsson. mbl.is/Styrmir Kári

Við erum að leggja voðalega mikla áherslu á þessar tegundir bifreiða og höfum mikinn áhuga á vistvænum samgöngum, enda með einstakar aðstæður á Íslandi til þess. Þá er ég bæði að hugsa um rafmagnsbílana, tengiltvinnbílana og metanið.“

Þannig mælir Friðbert Friðbertsson, forstjóri Heklu, við bílablað Morgunblaðsins. Um helgina lauk svonefndum vistvænum dögum fyrirtækisins þar sem vistvænir bílar voru í fyrirrúmi auk margs konar fróðleiks og fræðslu sem boðið var upp á.

Friðbert segir aðstæður til að nýta metan í samgöngum á Íslandi mjög sérstakar. „Þetta er,eins og rafmagnið, innlendur orkugjafi. Metanið er unnið úr rusli svo það er skemmtilegt að geta gert eitthvað gagnlegt úr því. Mér hefur fundist metanið gleymast svolítið í umræðum um vistvænar samgöngur. Allir hafa mikinn áhuga á rafmagninu en metanbílarnir hafa reynst alveg svakalega vel. Og auðvitað er þetta ódýrari orkugjafi en bensín og dísil.

Ný gas- og jarðgerðarstöð

Það eru forréttindi Íslendinga að geta boðið upp á innlenda endurnýjanlega og vistvæna orkugjafa svo sem metan og rafmagn. Þeir gætu tekið forystu í notkun vistvænna bíla. Íslendingar njóta þeirra einstöku náttúrugæða að hér á landi er mögulegt að byggja stóran hluta samgöngukerfisins á innlendum, endurnýjanlegum og umhverfisvænum orkugjöfum. Við gætum nánast verið sjálfbær í samgöngum, eða farið langt með það, með metani og rafmagni,“ segir Friðbert.

Fram kom á vistvænum dögum að Sorpa væri með áform um stóraukna metanvinnslu með endurvinnslu sorps næstu árin. Stefnt er að opnun nýrrar gas- og jarðgerðarstöðvar á árinu 2018. Er þetta liður í því að Reykjavíkurborg hefur sett sér markmið um kolefnishlutleysi og aðlögun að loftslagsbreytingum ásamt aðgerðaáætlun til ársins 2020. Metanið hefur hlutverk í því að ná þessu markmiði.

Hekla býður upp á metanbíla frá bæði Skoda og Volkswagen. Að sögn Friðberts hafa vinsældir metanbílsins stóraukist undanfarin ár og notendur verið mjög ánægðir með þá.

40 mismunandi vistvænir bílar

Hekla býður upp á mikið úrval vistvænna bíla. Segir Friðbert alls vera hægt að fá yfir 40 mismunandi bíltegundir og útfærslur í vistvænum flokki frá Volkswagen, Audi, Mitsubishi og Skoda. Þessir bílar flokkist sem visthæfir og því sé hægt að leggja gjaldfrjálst í annars gjaldskyld bílastæði hjá Reykjavíkurborg.

Á vistvænum dögum kynnti Hekla fjölbreytt úrval raf- og tengiltvinnbílum. Þar má nefna Audi A3 e-tron og Q7 e-tron, VW Golf GTE, Passat GTE, e-up!, e-Golf og Mitsubishi Outlander PHEV. Við þetta tækifæri voru frumsýndir hér á landi metanbíllinn Volkswagen Eco up! og tengiltvinnbíllinn Audi A3 e-tron. Gestum var boðið upp á að reynsluaka þessum bílum.

50% fleiri bílar seldir í ár

Í samtalinu við Friðbert kemur fram að tveir af hverjum þremur vistvænu bílum sem seldir hafa verið Íslandi í ár séu seldir hjá Heklu. Sala umboðsins á vistvænum bílum er 50% meiri í ár en í fyrra. Í október höfðu 996 vistvænir bílar selst á Íslandi frá síðustu áramótum og þar af seldi Hekla 663, eða 66,5%. Friðbert segir þetta endurspegla vitundarvakning hjá neytendum sem sé annt um umhverfið og vilji aka vistvænum bílum.

„Sala vistvænna bíla hefur aukist gríðarlega mikið frá í fyrra. Markaðurinn er að stækka en þessum bílum hefur líka verið rosalega vel tekið. Svo hafa stjórnvöld sýnt þessum málum áhuga. Rafbílarnir eru með mjög hagstæð innflutningsgjöld og metanbílarnir líka. Með þessu er stuðlað að frekari markaðssetningu og þróun á vistvænum samgöngum, sem er til bóta,“ segir Friðbert.

VW upptekið af vistvænum bílum

Hann segir Volkswagen-samsteypuna hafa verið mjög upptekna af vistvænum bílum upp á síðkastið og því sé hægt að bjóða upp á margar gerðir bíla af því tagi. Hið sama sé að segja um Skoda og Audi. „Þetta mikla framboð og þessi áhersla hefur virkað gríðarlega vel. Við erum búin að bjóða upp á þessa bíla frá 2013, byrjuðum með Mitsubishi i-MiEV rafbílinn. Mig minnir að hann hafi kostað einar 10 til 12 milljónir, en framboðið og möguleikarnir hafa breyst alveg gríðarlega á fimm til sex árum.“

Eins og fyrr segir var boðið upp á fyrirlestra og fróðleik á vistvænum dögum Heklu auk kynningar á bílum fyrirtækisins. Fulltrúar frá fjölmörgum starfsgreinum sem tengjast vistvænum samgöngum kynntu starfsemi sína, vörur og þjónustu. „Önnur fyrirtæki komu til okkar og kynntu hvað þau eru að gera á vettvangi vistvænna samganga. Það er auðvitað mikill áhugi á þessu í samfélaginu.

Gasframleiðsla í Flóanum

Þarna sýndu fjölmargir aðilar vörur, þjónustu og sérlausnir. Gestir gátu kynnt sér rafbílaöpp, hleðslulausnir, metantækni, orkudreifinet og vindmyllusmíði. Fyrirlestrar voru bæði í hádeginu og síðdegis og fjölluðu sérfræðingar þar meðal annars um framtíð vistvænna bifreiða. Loks var fjallað um metanframleiðslu sem á sér stað í Flóanum, en í Hraungerði í Flóahreppi framleiða kýrnar ekki bara mjólk því mykjan er einnig virkjuð til metaneldsneytis.

„Það var gaman að fá stúdenta úr Háskólanum sem haft hafa það að verkefni að smíða rafmagns kappakstursbíl sem var til sýnis hjá okkur. Það var mjög skemmtilegt að kynnast því framtaki. Við hjá Heklu erum annars voða spennt fyrir framtíðinni. Fjöldi nýrra vistvænna bifreiða mun koma á markaðinn á næstu árum og auka eftirspurn eftir innlendum orkugjöfum og draga þannig ár frá ári úr neikvæðum umhverfisáhrifum frá bifreiðum. Menn og konur hér í fyrirtækinu hafa sýnt því mikinn áhuga að kynna möguleika á vistvænum samgöngum,“ segir Friðbert Friðbertsson, forstjóri Heklu, að lokum. agas@mbl.is

Nokkrir af liðsmönnum Team Spark, aðstandendur kappakstursbílsins TS16, ásamt glöðum …
Nokkrir af liðsmönnum Team Spark, aðstandendur kappakstursbílsins TS16, ásamt glöðum gesti undir stýri.
Gestir á vistvænum dögum Heklu fylgjast með fyrirlestri um metanframleiðslu.
Gestir á vistvænum dögum Heklu fylgjast með fyrirlestri um metanframleiðslu.
Önnur frumsýningarstjarnan á Vistvænum dögum Heklu. Metanbíllinn Volkswagen eco up!
Önnur frumsýningarstjarnan á Vistvænum dögum Heklu. Metanbíllinn Volkswagen eco up!
Rafbíllinn VW e-Golf sem erí eigu Landsvirkjunar rennir í hlað …
Rafbíllinn VW e-Golf sem erí eigu Landsvirkjunar rennir í hlað á Vistvænum dögum Heklu.
Tengiltvinnbíllinn Audi A3 e-tron, sem frumsýndur er á Vistvænum dögum …
Tengiltvinnbíllinn Audi A3 e-tron, sem frumsýndur er á Vistvænum dögum Heklu, á stalli sínum.
Skoda Octavia G-Tec gengur fyrir metani og bensíni og átti …
Skoda Octavia G-Tec gengur fyrir metani og bensíni og átti því að sjálfsögðu heima á vistvænum dögum Heklu.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: