Jaguar í rafbílaformúluna og Mercedes horfir þangað

Jaguarbílarnir á ferð í rafbílaformúlunni í Marrakesh í Marokkó í …
Jaguarbílarnir á ferð í rafbílaformúlunni í Marrakesh í Marokkó í byrjun nóvember.

Breska lúxusbílafyrirtæki Jaguar mætti til leiks í rafbílaformúluna, Formula E, en fyrsta mót nýrrar keppnistíðar fór fram í Hong Kong í byrjun október. Auk Jaguar teflir Renault fram eigin liði og Audi og Citroen DS auk þess sem BMW á umfangsmikið samstarf við lið sem bera þó ekki nafn bílsmiðsins.

Miklar efasemdir voru í garð rafbílaformúlunnar er hún var í mótun og einnig á fyrstu keppnistíðinni. Raunin er hins vegar sú nú, að íþróttinni hefur vaxið fiskur um hrygg á miklum hraða, en keppnistíðin sem hófst um helgina er aðeins sú þriðja í sögu greinarinnar. Lýkur henni í Montreal næsta sumar, en keppt er í 12 mótum víðsvegar um heim, meðal annars í Buenos Aires, París og New York.

Bílafyrirtækin sýna rafformúlunni aukinn áhuga og til marks um það hefur Mercedes Benz skrifað undir samkomulag um að mæta til leiks á fimmtu keppnistíðinni, eða eftir tvö ár, 2018/19.

Ein helsta skýringin á aðdráttarafli rafformúlunnar fyrir bílafyrirtækin er að í tæknireglun keppnisbílanna er talsvert frelsi og svigrúm fyrir mismunandi útfærslur á tækni- og vélbúnaði. Þykja þær mikil hvatning fyrir bílaframleiðendur sem fái í formúlu E tækifæri til að þróa nýjar lausnir á drifrásum rafbíla, bæði hvað varðar rafmótora, rafala, spennubreyta og hug- og rafeindabúnað aflrásarinnar.

„Við höfum fylgst með skjótum vexti Formula E af miklum áhuga,“ segir íþróttastjóri Mercedes-Benz Motorsport. „Rafvæðing á eftir að gegna stóru hlutverki í bílsmíði í framtíðinni og kappakstur hefur ætíð verið vettvangur rannsóknar- og þróunarstarfs fyrir bílaframleiðsluna. Því á rafbílaformúlan eftir að skipta máli.“

Liðum verður fjölgað um tvö í 12 haustið 2018 en þá verður sú breyting á keppninni, að ökumenn brúka einn og sama bílinn í keppni en ekki tvo eins og nú.

Sebastian Buemi liðsmaður Renault og ríkjandi heimsmeistari í formúlu-E hóf titilvörnina með sigri í Hong Kong. Annar varð meistari fyrsta ársins, Lucas di Grassi hjá Audi ABT, varð annar og þriðji Nick Heidfeld hjá Mahindra. Fjórði var Nicolas Prost hjá Renault og í fimmta og sjötta sæti urðu Antonio Felix da Costa og Robin Frinjs sem keppa fyrir liðið Andretti sem BMW gekk til liðs við fyrir keppnistíðina. Jaguarliðinu vegnaði ekki vel í sínu fyrsta móti. Annar ökumaður þess, Mitchell Evans, féll úr leik og hinn, Adam Carroll, varð í 12. sæti af 15 sem í mark komu. Að móti loknu er Renaultliðið með 36 stig í liðakeppninni, ABT Schaeffler Audi Sport með 18, Andretti Formula E 18 og Mahindra Racing 16.

Sebastien Buemi á Renault e.dams í mótinu í Hong Kong.
Sebastien Buemi á Renault e.dams í mótinu í Hong Kong. AFP
Jaguarbílarnir á ferð í rafbílaformúlunni í Hong Kong.
Jaguarbílarnir á ferð í rafbílaformúlunni í Hong Kong.
Frá keppni í rafbílaformúlunni, formúlu E í Marrakesh.
Frá keppni í rafbílaformúlunni, formúlu E í Marrakesh.
Jaguarbílarnir á ferð í rafbílaformúlunni.
Jaguarbílarnir á ferð í rafbílaformúlunni.
mbl.is