Sjálfeknar smárútur prófaðar í París

Sjálfekni franski dvergstrætóinn EZ10 við brúna Pont-Neuf á Signubökkum í …
Sjálfekni franski dvergstrætóinn EZ10 við brúna Pont-Neuf á Signubökkum í París.

Franska tæknifyrirtækið EasyMile sinnir prófunum á rafknúnum strætisvagni í Parísarfumferðinni. Hófust þær á göngugötu á Signubökkum undir brúnni Pont Neuf í septemberbyrjun og leið EZ10 vagninn meðfram ánni í samstarfi við strætisvagna- og jarðlestafélag Parísar (RATP).

Strætisvagnar af þessari gerð hafa þegar verið reyndir við prófanir á lokuðum brautum í Japan, Singapúr og Kaliforníu og í venjulegri umferð í Helsinki í Finnlandi.

Í samtali við frönsku útvarpsstöðina RFI sagði fulltrúi EasyMile, Manuel Chaufrein, við upphaf akstursins, að prófanirnar væru þær fyrstu af mörgum sem ráðgerðar væru í ár og á því næsta, 2017. „Markmiðið er að sýna fram á hentugleika þess að farartæki af þessu tagi verði tekin í notkun í flutningakerfi Parísar.“ EZ10-smárútan getur ekið á allt að 25 km/klst hraða og borið 12 farþega. Fyrir tilstilli gervitunglaleiðsögubúnaðar (GPS), nýsitækni og árekstrarvarna getur hún komist leiðar sinnar. Við stjórn hennar eru og haft gagn af ljósnemum og fjarlægðarskynjurum.

Chaufrein segir að ætlað drægi smárútunnar sé um 120 kílómetrar. Raundrægi ræðst þó af veðri, fjölda farþega og veghalla en bíllinn ætti alla jafnan að geta ekið í átta til 12 stundir á fullri rafhleðslu. Hann bætti því við, að vagnarnir litlu væru ekki hugsaðir sem arftakar stórra strætisvagna heldur sem viðbót er bætir upp þjónustu jarðlestakerfisins og hefðbundnum strætisvagna. „Þeir klára til dæmis síðasta spölinn frá stöð að endanlegum áfangastað. Þá mætti einnig nota á flugvöllum til að flytja farþega til og frá,“ segir Chaufrein. Hann er á því að vagnar sem þessir verði komnir í almenna notkun í París innan fimm ára.

Ráðamenn vonast til að sjálfeknu vagnarnir verði komnir öllu fyrr til skjalanna, eða fyrir árslok 2018. Til viðbótar reynsluakstri vagnanna meðfram Signubökkum verður næsta áfanga hrint úr vör fyrir árslok. Verður EZ10-vagninn þá látinn ganga milli tveggja stórra samgöngumiðstöðva, lestarstöðvanna Gare de Lyon og Gare de Austerlitz. Þriðji áfanginn hefst svo í ársbyrjun 2017 er vagnarnir munu vera í ferðum milli bækistöðva frönsku kjarnorkustofnunarinnar og miðstöðvar annarra orkugjafa (CEA) í Saclay fyrir utan París. Þar er að finna stórt vísindaver sem sinnir kjarnorku- og eðlisfræðirannsóknum.

Kostar 26 milljónir


„Smárúturnar sjálfeknu bjóða upp á nýja þjónustumöguleika, sérstaklega á borgarsvæðum þar sem byggð er ekki ýkja þétt,“ segir forstjóri RATP, Elisabeth Borne, í tilkynningu. EasyMile-vagnarnir sem smíðaðir eru í borginni Toulouse ættu að verða daglegt brauð á götum Bordeaux snemma á næsta ári samkvæmt áætlun um aksturstilraunir með þá þar í borg. Forsmekkinn af því fengu borgarbúar í sumar er EZ10-smárúturnar voru brúkaðar í tengslum við hina alþjóðlegu ITS-ráðstefnu um nýtækni í samgöngumálum.

Í byrjun september hófust prófanir með akstur tveggja lítilla mannlausra vagna af gerðinni Arma frá franska fyrirtækinu Navly í þriðju stærstu borg Frakklands, Lyon. Þeir geta flutt allt að 15 farþega á 20 km/klst hraða og er ekið á lokaðri 1,3 kílómetra langri braut í nýju hverfi borgarinnar, Confluence. Tilraunin mun standa í eitt ár. Þessir vagnar voru prófaðir í akstri í svissneska bænum Sion fyrr í sumar. Smárúturnar Arma eru sagðar tæknileg undur er kosti um 200.000 evrur stykkið, eða sem svarar tæplega 26 milljónum króna.

Prófanirnar í París hófust daginn fyrir bílalausan borgardag sl. sunnudag. Um 650 km af vegakerfi borgarinnar var lokað öllum bílum nema bráðnauðsynlegum farartækjum. Samsvarandi lokun átti sér stað á sunnudegi fyrir ári, en þá var þriðjungi vegakerfis Parísar lokað fyrir bílaumferð. Árangurinn af því var sá að niturdíoxíð, rauðbrún eitruð lofttegund, í borgarloftinu minnkaði um 40%.

Evrópuríkin í fararbroddi


Óhætt er að segja, að Evrópuríkin séu í fylkingarbrjósti fyrir tilraunum með sjálfekna hópflutningabíla í almannasamgöngum. Í apríl í fyrra samþykktu aðildarríki Evrópusambandsins (ESB) yfirlýsingu sem kennd er við Amsterdam og kveður á um að hafist verði handa um að semja lög og reglur er heimili akstur sjálfekinna bíla í venjulegri umferð.

Í júlí í sumar gerði þýski bílsmiðurinn Mercedes-Benz árangursríkar frumprófanir með „rútu framtíðarinnar“ sem ók 19 km vegalengd frá Schiphol flugvellinum við Amsterdam til borgarinnar Haarlem. Og eins og fram kemur hér á síðunni standa yfir frumtilraunir með ökumannslausa strætisvagna í nokkrum löndum Evrópu. Gæti starfsemi þeirra verið orðin ríkjandi í álfunni áður en annar áratugurinn er úti.

Finnar sér á parti


Finnar hófu prófanir á ökumannslausum smárútum í Helsinki síðsumars. Hafa tvær sjálfeknar EX-10 smárútur verið þar í förum í venjulegri umferð. Farþegar geta hoppað um borð eða frá borði á fyrirfram ákveðnum leiðum, rétt eins og á við um hvaða strætisvagn sem er. Verkefnið er unnið í samstarfi við tækniháskóla Helinki sem rannsakar hegðan sjálfeknu bílanna í umferðinni. Aka þessir strætisvagnar að hámarki á 16 km/klst hraða. Til langs tíma litið sjá Finnar fyrir sér að öll ökutæki á götum Helsinki sjálfekin og almenningssamgöngur allsráðandi. Smárúturnar hefðu því hlutverki að safna farþegum í úthverfum og koma þeim inn á megin flutningaæðarnar.

Hvarvetna hefur skriffinnska staðið í vegi tilrauna með sjálfekna strætisvagna, nema í Finnlandi. Í finnskum lögum er ekki að finna neitt er reisir skorður við akstri mannlausa farartækja í umferðinni. Því var samþykki umferðaröryggisyfirvalda (Trafi) við akstrinum auðfengið. Vegna eðlis prófana Finna í venjulegri umferð er víða um heim fylgst náið með tilraunum þeirra, segir Harri Santamala við útvarpsstöðina Yle, en hann stýrir rannsóknarverkefni tækniháskólans.

Frumprófanirnar eru gerðar á EasyMile EZ-10 rafrútum en að þeim loknum sjá Finnar ekkert annað fyrir sér en prófanir á stærri mannlausum strætisvögnum. Þrátt fyrir að frumkvæði ráðamanna í Helsinki sé lofað þá voru samskonar smárútur prófaðar í tengslum við byggingarsýningu í bænum Vantaa í fyrra. Óku þeir á vegum sem lokaðir voru annarri umferð.

Árekstur í Sviss


Frakkar sigla í kjölfar Finna með prófanir sem eru undanfari þess að sjálfeknir strætisvagnar verði orðnir gildir í samgöngum borgarinnar, hugsanlega eftir um tvö ár. EX-10 rafskutlurnar hafa einnig verið til akstursprófana í Japan, Singapúr og Kaliforníu. Í kantónunni Valais í Sviss (Wallis á þýsku) eru og nýhafnar prófanir á 11 sæta heimasmíðuðum bíl sem brúkaður er sem póstrúta. Á miðvikudaginn var kom bíllinn við sögu áreksturs og var ökuriti hans, „svarti kassinn“, tekinn til skoðunar svo hægt yrði að draga lærdóm af atvikinu. Í borginni Sion í Sviss hafa staðið yfir tilraunir frá í júní á sjálfekinni smárútu. Að þeim loknum er ætlunin að hafin verði reglubundin ferðaþjónusta með slíkum farartækjum þar í borg. Aka rúturnar á 20 km hraða og er fjarstýrt frá sérstakri stjórnstöð.

Það er ekki nóg að sjálfeknir strætisvagnar séu handan við hornið, heldur eru jarðlestakerfi margra borga orðin sjálfvirk og laus við ökumenn. Má þar til dæmis nefna Kaupmannahöfn, Barcelona, Tórínó, Mílanó, London, Lyon og Búdapest.

Innviðir sjálfeknu smárútunnar EZ10 sem hafnar eru tilraunir með í …
Innviðir sjálfeknu smárútunnar EZ10 sem hafnar eru tilraunir með í París.
EZ10 smástrætóinn við reynsluakstur í bænum Vantaa í Finnlandi.
EZ10 smástrætóinn við reynsluakstur í bænum Vantaa í Finnlandi.
Sjálfeknir dvergstrætóar í röðum við stöðvar Easymile í Toulouse í …
Sjálfeknir dvergstrætóar í röðum við stöðvar Easymile í Toulouse í Frakklandi.
Sjálfekna smárútan vekur athygli á Signubökkum í París.
Sjálfekna smárútan vekur athygli á Signubökkum í París.
mbl.is