Gæði, einfaldleiki og nánd við náttúruna

Eins og sést er Minkurinn meðfærilegur og nettur, og auk …
Eins og sést er Minkurinn meðfærilegur og nettur, og auk þess laufléttur.

Nýverið var kynntur til sögunnar nýstárlegur og eftir því áhugaverður kostur fyrir þá sem gaman hafa af því að vera á faraldsfæti. Sumir kjósa að gista á hótelum og öðrum gististöðum af því taginu en aðrir kunna því betur að búa við meira frelsi þegar ferðast er og þar kemur umræddur valkostur til sögunnar.

Hér er um að ræða gistivagn sem kallast „Minkurinn“ og er hugarfóstur þeirra Kolbeins Björnssonar frumkvöðuls og Ólafs Gunnars Sverrissonar hönnuðs og bátasmiðs. Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum er Minkurinn til þess fallinn að fanga augað á ferð sinni um landið enda útlínur hans sérstæðar og fallegar.

Innblásinn af 70 ára gömlum Teardrop Trailers

„Þetta er svona það sem við köllum „smágistivagn“ því það er þjálla en hjólhýsi og fangar anda Minksins betur, að okkur finnst,“ segir Kolbeinn í spjalli við Bílablað Morgunblaðsins. „Hugmyndin hefur þróast á síðustu þremur árum og spratt hún upp úr aðdáun okkar á Teardrop Trailers, sem er lítill gistivagn frá Bandaríkjunum sem var vinsæll á 3. og 4. áratug síðustu aldar, skemmtilegt og með mikinn karakter. Við byrjuðum með þá hugmynd að smíða svona vagna sjálfir og leigja einfaldlega út til ferðamanna því markaðurinn er orðinn svo stór úti á landi. 80% erlendra ferðamanna sem hingað koma segjast komnir til að sjá og upplifa íslensku náttúruna og 70% af greiddum gistinóttum eru úti á landi yfir sumartímann. Við sáum hins vegar fljótlega að umfangið á markaðnum er orðið slíkt og tækifærið stærra en svo að við kæmumst neitt áleiðis með að ætla að gera þetta allt sjálfir. Við fengum því þekkta, sænska hönnunarstofu, Jordi Hans Design, til að hanna ytra byrðið og réðum við til okkar Emilíu Borgþórsdóttur til að teikna fyrir okkur innra rýmið. Framleiðslan er komin í gang og við verðum með 50 vagna klára á næsta ári. Viðskiptamódelið gengur síðan út á að selja aðilum í ferðaþjónustu vagnana og þjónusta þá svo í framhaldinu.“

Kolbeinn bætir því við að líklegast verði þeir félagar með einhverja vagna í sölu til einstaklinga en það verði í minni mæli.

Til að njóta náttúrunnar

Að sögn Kolbeins felst sérstaða Minksins í því að hann er hannaður til að gera fólki kleift að njóta náttúrunnar sem best. „Við hönnuðum hann þannig að hann væri mjög léttur og meðfærilegur fyrir íslenska náttúru, því hann er mjög sterkur, smíðaður úr álprófílum sem eru mjög sterkt efni. Samt er hann ekki nema um 500 kíló að þyngd. Við hugsuðum vagninn til útleigu og hönnuðum hann því á mjög sterkri grind og með sterkum áleiningum. Hann er því hugsaður til þess að vera í stöðugri notkun úti á landi, jafnvel á holóttum vegum, og þolir því mikið.“

Frá sjónarmiði ferðamannsins er Minkurinn líka sérlega meðfærilegur, að sögn Kolbeins, og engrar uppsetningar er þörf.

„Að innan teljum við að okkur hafi tekist að skapa þægilegt rými sem samanstendur af vörum og aðbúnaði í hæsta gæðaflokki,“ útskýrir Kolbeinn. „Rúmdýnurnar og sængurver eru frá sænska framleiðandanum Hästens, hljómkerfið er frá Bose, og hver vagn er búinn Webasto-hitara svo vagninn hitni fljótt og vel þegar kólna tekur á haustin og veturna. Vagnarnir eru búnir wi-fi til að ferðalangar séu ávallt nettengdir ef þeir vilja og loks er Minkurinn búinn myndarlegu panorama-glerþaki sem kemur sér vel þegar maður vill leggjast á bakið og virða fyrir sér norðurljósadýrðina eða stjörnubjartan himininn. Aftan í vagninum er síðan gott eldhúsrými. Vagninn er lítill og nettur og innra rýmið eftir því takmarkað, en allt sem þar er inni er mjög vandað. Minkurinn er hugsaður fyrir þá sem vilja gæði, einfaldleika og nánd við náttúruna. Við lögðum upp með að svara helstu nauðsynjum ferðalanga – að þeim sé hlýtt, þeir sofi vel, umhverfið sé fallegt og einfalt, og kaldur gin&tónik innan seilingar. Bara þessar helstu grunnþarfir,“ segir Kolbeinn og hlær við.“

Greni fyrir Minkana

Kolbeinn bætir því við að verið sé að þróa net áningar- og gististaða með ferðaþjónustubændum, landið um kring, sem kallist „Minkagreni“ og þar muni þeim sem ferðist um á Minkavögnum gefast kostur á að staldra við, vista sig upp eftir föngum og gista ef því er að skipta. „Þannig hefur fólk sem leigir vagnana af bílaleigum og öðrum ferðaþjónustuaðilum aðgang að grenjum víðs vegar um landið. Ferðaþjónustubændurnir geta svo bætt um betur og boðið upp á afþreyingu líka, og fá endurgjald fyrir að hleypa Minkunum inn á landið sitt. Við erum ekki að stefna fólki inn á hálendið heldur bjóðum við frekar upp á staði með ferðaþjónustu fyrir ferðalanga, hvort heldur það er hreinlætisaðstaða, morgunmatur, hestaleiga, fjórhjólaferðir eða hvað sem vera skal. Með þessu móti teljum við okkur geta dreift ferðamönnum betur um landið og leyst að sama skapi það gistivandamál sem sums staðar kemur upp vegna þess að allt er fullt. Landið er stórt og tækifærin mörg,“ segir Kolbeinn að endingu.

jonagnar@mbl.is

Þannig er umhorfs inni í Minknum. Rúmfötin bera einkennisköflurnar frá …
Þannig er umhorfs inni í Minknum. Rúmfötin bera einkennisköflurnar frá Hästens
Ólafur Gunnar Sverrisson (t.v.) og Kolbeinn Björnsson, höfundar Minksins.
Ólafur Gunnar Sverrisson (t.v.) og Kolbeinn Björnsson, höfundar Minksins.
Aftast í gistivagninum er aðgengileg eldunaraðstaða með helstu nauðsynjum.
Aftast í gistivagninum er aðgengileg eldunaraðstaða með helstu nauðsynjum.
Vagnarnir eru búnir wi-fi til að ferðalangar séu ávallt nettengdir …
Vagnarnir eru búnir wi-fi til að ferðalangar séu ávallt nettengdir ef þeir vilja.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: