Nýr Ford F-150

Ford F-150 dísilbíllinn nýi.
Ford F-150 dísilbíllinn nýi.

Ford kynnti nýja útgáfu af F-150 pallbílnum á árlegu norður-amerísku bílasýningunni, sem hófst í bílaborginni Detroit um helgina. Var þar um að ræða fyrsta dísilbílinn í F-150 seríunni.

Ford F-serían hefur verið söluhæsti pallbíll Bandaríkjanna 40 ár í röð og ennfremur söluhæsta  einstaka bílamódelið í 35 ár.

F-150 línan hefur verið uppfærð að mestu og í fyrsta sinn bætist dísilbíll í hópinn. Er hann búinn 3ja lítra hverfilblásinni V6-Power Stroke vél. 

Þá hefur vélarvalið breyst og kaupendur F-150 fá nú tvær alveg nýjar bensínvélar til að velja úr í pallbílinn vinsæla, báðar með forþjöppu. Annars vegar 3,3 lítra V6-vél og hins vegar 2,7 lítra EcoBoost vél. Loks hefur venjuleg 5,0 lítra V8 vél verið uppfærð að afli og togi sem hvort tveggja er meira en áður. Segir Ford að nýja 3,3 lítra vélin skili sama afli og 3,5 lítra vélin sem er á útleið en sé sparneytnari.

Hægt er að fá í allar útgáfur bílsins 10 hraða sjálfskiptingu, sem mun vera einsdæmi. Loks hefur öryggisbúnaður F-150 verið aukinn og bættur, meðal annars er hann búinn árekstrarvara og nema sem skynjar gangandi vegfarendur á ferð.

Að þessu sinni hafa einstakar útfærslur F-150 fengið andlitslyftingu og útlitsbreytingu, misjafnlega mikla.

Ford F-150 hefur fengið lítilsháttar andlitslyftingu og útlitsbreytingu.
Ford F-150 hefur fengið lítilsháttar andlitslyftingu og útlitsbreytingu.
Stjórnklefi F-150 jeppans frá Ford.
Stjórnklefi F-150 jeppans frá Ford.
mbl.is