Fiat Chrysler sakað um blekkingar

Jeep Grand Cherokee jeppar af árgerðinni 2015.
Jeep Grand Cherokee jeppar af árgerðinni 2015. AFP

Volkswagen er ekki eini bílsmiðurinn sem átt hefur undir högg að sækja  í Bandaríkjunum vegna útblásturshneykslis. Nú hefur umhverfiseftirlitsstofnun Bandaríkjanna (EPA) sakað Fiat Chrysler um sambærilegt svindl.

EPA segir að Fiat Chrysler hafi komið tölvubúnaði fyrir í 104.000 pallbílum og jeppum til að hylma yfir losun þeirra á niturefnum umfram lög. Þegar fréttir af þessu fóru af stað í dag lækkuðu hlutabréf í Fiat strax um rúmlega 15%.  

Var búnaðinum komið fyrir í 2014, 2015 og 2016 árgerðunum af Jeep Grand Cherokees jeppanum og Dodge Ram 1500 pallbílnum með 3,0 líra dísilvélum.

EPA er nú með til rannsóknar hvort forritin í vélbúnaði þessara bíla jafngildi blekkingarbúnaði. Volkswagen setti blekkingarforrit í um 11 milljónir bíla á heimsvísu og hefur það leitt til tæplega 20 millljarða dollara sekta og bótagreiðsla í Bandaríkjunum einum og sér og varðhalds sex af helstu stjórnendum VW vestra.

Formaður loftgæðastofnunar Kaliforníuríkis, Mary Nichols, sakaði Fiat í dag um að hafa brotið reglur. „Eina ferðina enn ákveður stór bílaframleiðandi að fara á svig við reglur og er gómaður,“ sagði hún.

Fyrir sína parta segist Fiat Chrysler munu sýna fram á að útblástursstýringarnar sem málið snýst um séu fyllilega heimilar og í samræmi við gildandi reglur. Þær falli ekki undir reglur um blekkingarbúnað.

Höfuðstöðvar Fiat Chrysler Automobiles (FCA) í Tórínó á Ítalí.
Höfuðstöðvar Fiat Chrysler Automobiles (FCA) í Tórínó á Ítalí. AFP
mbl.is