Renault neitar að hafa svindlað

Fánar blakta við hún við höfuðstöðvar Renault við París.
Fánar blakta við hún við höfuðstöðvar Renault við París.

Saksóknarar í París liggja nú yfir niðurstöðum rannsókna á útblæstri dísilbíla Renault og munu skoða hvort ástæða sé til málshöfðunar á hendur fyrirtækinu. Í yfirlýsingu segist
Renault uppfylla öll lög og reglur varðandi útblástur og enginn blekkingarbúnaður væri í framleiðslubílum fyrirtækisins.

Saksóknararnir þrír eru sagðir velta fyrir sér hvort grundveöllur sé til málshöfðunar á grundvelli áhrifa mengunar frá bílum Renault á almennt heilsufar fólks. Skoða saksóknararnir  gögn og niðurstöður rannsóknar eftirlitsstofnunar neytendamála (DGCCRF) hjá franska bílsmiðnum. Kom ríkisstjórnin gögnunum á framfæri við saksóknarana.

Umhverfisráðherrann Segolene Royal sagði í samtali við sunnudagsblaðið Le Journal du Dimanche í gær, að rannsóknin hjá Renault gæti átt eftir að teygja anga sína til annarra bílsmiða í öðrum löndum. Í rannsóknunum í fyrra hafi bílar fleiri framleiðenda verið skoðaðir og þeir reynst losa eiturloft umfram reglur. Skýrði hún ekki frá því hvaða bílaframleiðendur ættu þar hlut að máli.

Fjöldi frávika

„Fjöldi frávika komu í ljósí bílum Renault, vel yfir leyfilegum mörkum. Hið sama á við um aðra bílaframleiðendur og því gætu frekari rannsóknir átt sér stað. Annars er þetta mál dómskerfisins og ég gríp þar ekki inn í,“ sagði Royal.

Renault þvertekur fyrir að hafa haft brögð í tafli og í bílum þess hafi enginn búnaður verið til að blekkja mengunarmælingar skoðunarmanna. Franski bílsmiðurinn segir að við rannsóknirnar hafi komið í ljós, að niturhreinsandi búnaður í afgashringrásinni í helstu dísilvélum hafi leitt til stíflu í forþjöppum. Við því hafi verkfræðingar brugðist með því að stilla hringrásina þannig að hún lokaðist á tilteknu og mjóu hitastigsbili, 17°-35°C. Stóðust vélarnar mælingar í herbergishita í skoðunarstöðvum en hins vegar rauk niturlosunin upp á vegum úti við þessa takmörkuðu hitabilslokun hringrásarinnar.

Renault sendi sl. laugardag, 14. janúar, frá sér yfirlýsingu vegna þessa máls og fer hún hér á eftir:

„Í kjölfar þess að ólöglegur tæknibúnaður fannst 2015 í ákveðnum bílgerðum frá alþjóðlegum bílaframleiðanda á Bandaríkjamarkaði ákváðu frönsk stjórnvöld að hefja að eigin frumkvæði sjálfstæða tæknirannsókn þar sem gengið skyldi úr skugga um að franskir bílaframleiðendur notuðust ekki við slíkan búnað. Fyrir hönd stjórnvalda var Umhverfisstofnun Frakklands falin yfirumsjón með rannsókninni og réð hún tæknifyrirtækið UTAC CERAM til að framkvæma rannsóknina. UTAC tók 100 bíla til skoðunar, þar af 25 frá Renault í samræmi við 25% markaðshlutdeild Renault í Frakklandi. Í lok desember 2015 höfðu 11 bílar verið rannsakaðir, þar af 4 frá Renault.

Niðurstaða UTAC hefur leitt til þess að frönsk stjórnvöld telja að ekki sé ástæða til að ætla að ólöglegur búnaður sé í notkun hjá Renault. Hins vegar leiddu prófanir UTAC til áhugaverðrar samræðu milli sérfræðinga UTAC og tæknisérfræðinga Renault. Prófanirnar sýndu nefnilega að unnt er að innleiða ákveðna tæknilausn sem skilar sér í bættri skilvirkni bílvéla. Þann ávinning hefur Renault ákveðið að innleiða þegar í stað í bíla fyrirtækisins sem framleiddir verða héðan í frá og setja einnig í þá nýlegu bíla sem nú þegar eru í umferð. Samhliða prófunum UTAC framkvæmdu Samkeppnisstofnun Frakklands, Neytendastofnunin og efnahagsbrotadeild lögreglunnar sjálfstæða viðbótarransókn með heimsókn til höfuðstöðva Renault og tæknimiðstöðvar fyrirtækisins í Lardy og Guyancourt í því skyni að staðreyna niðurstöður rannsóknar UTAC. Engir hnökrar eru á samstarfi fulltrúa stjórnvalda og Renault í því verkefni og veitir Renault að sjálfsögðu alla þá aðstoð sem fyrirtækinu er unnt. Í samræmi við árangursríka umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem fram fór í París á liðnu ári mun Renault halda áfram þróunarvinnu og fjárfestingum í tæknilausnum sem bæta umhverfið. Renault Group er nú þegar aðili að sérstöku umhverfisverkefni sem hefur að markmiði að draga úr útblæstri bifreiða og hefur náð umtalsverðum árangri í þeim efnum. Því til vitnis má nefna að dregið hefur úr útblæstri bifreiða Renault Group um 10% á hverju ári síðan 2013."

mbl.is