Metafsláttur hjá Olís eftir stórsigur Íslands

Olís veitir góðan afslátt.
Olís veitir góðan afslátt.

Olís og ÓB veita viðskiptavinum, lykla- og korthöfum, 27 krónu afslátt af eldsneytislítranum í dag eftir öruggan 33-19 sigur Íslands á Angóla á HM í handbolta í gærkvöld.

Olís hét 13 krónu afslætti og síðan aukaafslætti ef Ísland ynni leikinn sem myndi stjórnast af markamuninum. Eftir 14 marka sigur Íslands er afslátturinn því alls 27 krónur á lítrann hjá Olís og ÓB í dag.

„Þetta er mesti afsláttur sem Olís hefur nokkru sinni veitt af eldsneytislítranum og það er bara gaman að viðskiptavinir okkar njóti eftir þennan frábæra sigur íslenska liðsins í gærkvöld. Ég viðurkenni þó að það var skrýtin tilfinning að vera að hvetja strákanna til sigurs með sem mestum mun vegna markamunarins og á sama tíma vera farinn að svitna yfir afslættinum,“ segir Jón Ólafur Halldórsson, forstjóri Olís, í tilkynningu.

„Strákarnir eru vonandi komnir í gang núna og halda áfram á sömu braut í leiknum gegn Makedóníu og vinna hann. Olís og ÓB verða að sjálfsögðu með 13 krónu afsláttinn áfram og markamuninn aukalega. Íslenska liðið stjórnar því afslættinum áfram,“ segir Jón Ólafur ennfremur.

mbl.is