Besti ódýri smábíllinn fimm ár í röð

Dacia Sandero í hefðbundinni útgáfu til hægri og sem smájepplingurinn …
Dacia Sandero í hefðbundinni útgáfu til hægri og sem smájepplingurinn Sandero Stepway til vinstri.

Bílsmiðurinn Dacia, sem er í eigu Renault, sækir stöðugt í sig veðrið og til að mynda eru kaupendur slíkra bíla í Frakklandi ánægðari með val sitt en nokkrir aðrir. Nýjasta rósin í hnappagat Dacia er að Sanderobíllinn hefur verið valinn besti smábíll ársins í flokki ódýrari smábíla.

Dacia Sandero hefur ekki staðið íslenskum neytendum til boða enn sem komið er, umboðið býður aðeins upp á nokkra stallbræður hans; jeppann Duster, langbakinn Logan og sendibílinn Dokker. 

Það er breska bílaritið What Car? sem stendur fyrir umræddri útnefningu bíla ársins í Bretlandi. Valdi blaðið Sandero sem „besta smábílinn undir 12 þúsund pundum“ á verðlaunahátíð í London.

Þetta er fimmta árið í röð sem Sandero hlýtur þessi verðlaun What Car? Bíllinn hlaut verðlaunin fyrst árið 2013 þegar hann kom á markað í Bretlandi og hefur síðan hlotið þau árlega samfara auknum búnaði sem framleiðandinn hefur bætt við, en þó sérstaklega í nýjustu árgerðinni.

Steve Huntingford, ritstjóri What Car? segir engan nýjan bíl á breska markaðnum bjóða jafn mikið pláss í þessum stærðarflokki auk þess sem gæði og frágangur í farþegarýminu hafi batnað mikið. „Síðast en ekki síst er betra að aka bílnum en áður og aksturseiginleikar Sandero eru ótrúlega miklir miðað við hvað hann er ódýr,“ sagði Huntingford við verðlaunaafhendinguna. Dacia Sandero er fimm dyra hlaðbakur, sem kostar frá aðeins sem svarar 725 þúsundum króna í Bretlandi, enda er hann ódýrasti nýi bíllinn sem völ er á þar í landi. Markaðshlutdeild Dacia á breska markaðnum fer stöðugt vaxandi og seldi framleiðandinn þar um 26.500 bíla á síðasta ári.

Dacia Sandero mælist vel fyrir í Bretlandi.
Dacia Sandero mælist vel fyrir í Bretlandi.
mbl.is