VW útilokar ekki lengur formúlu-1

Volkswagen gæti birst í formúlu-1 undir merkjum Bugatti eða Bentley.
Volkswagen gæti birst í formúlu-1 undir merkjum Bugatti eða Bentley.

Volkswagen hefur skipt um kúrs gagnvart þátttöku í formúlu-1 og segist ekki lengur útiloka að ganga til liðs við íþróttina og tefla fram bíl til keppni í framtíðinni.

Undanfarin misseri hefur VW staðfastlega neitað að hafa áformað að tefla fram keppnisliði í formúlu-1. Að hluta til vegna andúðar bílrisans á stjórnunarstíl alráðsins Bernie Ecclestone.

Nú er hann horfinn á braut og sömuleiðis hefur Volkswagen þörf fyrir að afla sér vina á sem víðustum vettvangi í framhaldi af útblásturshneykslinu sem við fyrirtækið er kennt.

„Frá mínum sjónarhóli séð er alveg ný staða komin upp, alveg ný byrjun,“ segir yfirmaður Bentley og Bugattideildar VW, Wolfgang Durheimer, um þá stöðu sem komin er upp með kaupum bandaríska fjölmiðlarisans Liberty á formúlu-1.

mbl.is