Strætó tekur stefnuna á rafmagnsvagna

Rafstrætó frá Yutong.
Rafstrætó frá Yutong.

Strætó bs. hefur fjárfest í 9 hreinum rafstrætisvögnum frá kínverska framleiðandanum Yutong. Hröð skref eru stigin í átt að rafvæðingu flotans sem spara mun yfir 1.000 tonn af útblæstri gróðurhúsalofttegunda strax á næsta ári.

Í júní næstkomandi mun Strætó bs. taka í notkun fyrstu fjóra rafmagnsvagnana af þeim níu sem fyrirtækið hefur fest kaup á úr verksmiðjum Yutong í Kína. Verða það fyrstu strætisvagnarnir hérlendis sem einvörðungu verða knúnir áfram af rafmagni.

Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó, segir að starfsmenn fyrirtækisins séu mjög spenntir fyrir þessari nýjung í hinn stóra flota vagna sem fyrirtækið gerir út.

„Strætó hefur fylgst með þróun umhverfisvænna vagna undanfarin ár, en þeir hafa vegna hás innkaupskaupsverðs ekki haft möguleika á að vinna útboð á grundvelli almennra útboðsskilmála hjá okkur fyrr en nú.“

Orðnir hagkvæmari í innkaupum

Jóhannes segir að það hafi breyst í útboði sem fyrirtækið stóð fyrir í fyrra. Í síðustu viku var tilkynnt niðurstaða í öðru vagnakaupaútboði og þar var hagstæðast að kaupa rafmagnsvagna frá sama framleiðanda. Því lítur út fyrir að fimm vagnar til viðbótar bætist við vagnaflota Strætó.

„Þegar við metum útboðsverð lítum við til kostnaðar sem reiknaður er út frá stofn- og rekstrarkostnaði í ákveðið mörg ár. Svo gerðist það í þessu útboði að þessir vagnar frá Yutong komu einfaldlega best út.“

Hann segir að verðið á vögnunum hafi verið í kringum 66 milljónir á stykkið og þó að það sé hátt í mörgu tilliti þá sé rekstrarkostnaður á vögnum sem gangi fyrir rafmagni mun lægri en kostnaður við dísilvagnana.

„Rafmagnið hér á landi er svo ódýrt að það vegur upp á móti háum stofnkostnaði. Það er auðvitað ánægjulegt því þessir vagnar eru miklu umhverfisvænni heldur en dísilvagnarnir.“

Þar vísar Jóhannes til þess mats Strætó að með því að skipta fjórum dísilvögnum út fyrir nýju vagnana dragi fyrirtækið úr losun gróðurhúsalofttegunda sem nemi 500 tonnum á ársgrundvelli, með tilkomu þessa fimm til viðbótar minnkar losun gróðurhúsalofttegunda hjá Strætó um 625 tonn til viðbótar og er það mikilvægt skref í átt að umhverfisvænni vagnaflota Strætó í framtíðinni.

Um 320 kílómetra drægni

Vagnarnir frá Yutong munu hafa drægni upp á um 320 kílómetra á fullri hleðslu og segir Jóhannes að það þýði að vagnarnir taki meginhleðslu sína á nóttunni en að þeir verði svo settir í skammtímahleðslu á ákveðnum stöðum yfir daginn til að auka á drægnina.

„Við erum núna að leggja mat á það hvar hleðslustöðvum verður komið fyrir en það liggur ekki fyrir á þessari stundu hvar þær verða staðsettar. Það er hins vegar ljóst að það þarf öflugar rafmagnstengingar til að keyra hleðslustöðvar af þessu tagi og við erum í samtali við Orku náttúrunnar um hvar það hentar best að koma þeim fyrir. Mögulega munum við til dæmis setja upp hleðslustöð á Hlemmi.“

Jóhannes segir að staðsetningar hleðslustöðvanna muni einnig þurfa að taka mið af því á hvaða leiðum vagnarnir verða notaðir en þar verði um að ræða leiðir þar sem vagnarnir geti stöðvað í ákveðinn tíma til tímajöfnunar. Þau stopp verði notuð til að hlaða inn á rafhlöður þeirra.

Hann segist vona að fleiri vagnar af þessu tagi bætist í flota Strætó á komandi árum.

„Þróunin er í þessa átt og með þessu er hægt að draga mjög úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfseminni. En það að við skulum taka fjóra vagna inn í okkar flota er í raun og veru mjög stórt skref og í raun stærra en stigið hefur verið í Kaupmannahöfn svo dæmi sé tekið,“ segir Jóhannes.

Gefið góða raun í Svíþjóð

Allt frá árinu 2015 hafa rafstrætóar ekið um götur Gautaborgar í Svíþjóð en borgaryfirvöld tóku ákvörðun um að leggja eina tiltekna leið undir vagna af því tagi, ásamt tengiltvinnvögnum. er það leið 55 og henni þjóna þrír hreinir rafstrætóar og sjö tengiltvinnvagnar. Liggur leiðin meðal annars um miðborg Gautaborgar.

Verkefnið í kringum rafvæðingu leiðar 55 í Gautaborg byggir á samstarfi 14 ólíkra hagsmunaðila og hefur það hlotið yfirskriftina ElectriCity eða Rafborg. Í hópi þeirra eru háskólastofnanir, orkufyrirtæki, bílaframleiðandinn Volvo, sem framleiðir vagnana og ýmsir fleiri. Með því er ætlunin að leita nýrra leiða til að innleiða rafvæddar almenningssamgöngur. Meðal þeirra þæginda sem notendur vagnanna njóta er frítt þráðlaust netsamband og möguleikar til að hlaða raftæki á borð við síma og spjaldtölvur. Þá eru vagnarnir einnig búnir sjálfvirkum búnaði sem hægir á vögnunum í nágrenni við skóla og önnur viðkvæm svæði þar sem óvarðir vegfarendur fara um.

Ekki stefnt að þakhleðslustöðvum

Nú þegar er til staðar tækni til að hlaða strætisvagna á ofurhraða og hefur tæknin sem gerir það kleift verið útfærð með þeim hætti að á meðan vagnar eru kyrrstæðir leggst einskonar krani eða bóma ofan á þakið á þeim sem tengir þá við hleðslustöðina. Með þessari tækni má hlaða rafhlöðu strætisvagns frá 0 og upp í 80% á örfáum mínútum.

Jóhannes segir að engin skref hafi verið tekin í átt að innleiðingu þessarar tækni hér á landi. „Það eru ýmsar hindranir á þeirri leið. Ein þeirra er einfaldlega sú að stöðvar af þessu tagi þurfa gríðarlegt rafmagn og það er algjörlega óvíst að núverandi raforkuflutningskerfi innan borgarinnar gæti tekið við svona stöð. Það er sagt að þær eyði viðlíka miklu rafmagni og meðal frystihús.

Þá segir Jóhannes að þar sem stöðvar af þessu tagi hafa verið settar upp, meðal annars í Gautaborg þar sem stór skref hafa verið stigin í rafvæðingu strætisvagnakerfisins, sé hart deilt um þau sjónrænu áhrif sem hleðslustöðvar af þessu tagi hafa.

„Það er deilt um hvort svona stöðvar eigi til dæmis rétt á sér í miðborgum og það er umræða sem á alveg eftir að taka hérlendis.“ Óhætt er að segja að með því að taka í notkun níu rafmagnsvagna sé Strætó að stíga leiðandi skref í rekstri strætisvagna sem eingöngu eru knúnir hreinni orku og er hlutfall rafmagnsvagna af heildarfjölda vagnaflota í rekstri á höfðuborgarsvæðinu með því hæsta sem um getur í heiminum. ses@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: