Frumsýna Jaguar í Listasafninu

Jaguar XF verður meðal gripanna á sýningunni í Listasafni Reykjavíkur …
Jaguar XF verður meðal gripanna á sýningunni í Listasafni Reykjavíkur á morgun.

Bílaumboðið BL ehf., umboðsaðili Jaguar Land Rover hér á landi, hefur nú formlega bætt við sig lúxusmerkinu Jaguar í flóru fyrirtækisins.

Verður af þessu tilefni haldin bílasýning í Listasafni Reykjavíkur í Hafnarhúsinu á morgun, laugardag milli kl. 13 og 17. Þar verða frumsýndar fimm nýjar og gamlar gerðir af Jaguar; sportjeppinn Jaguar F-Pace, fjölskyldusportbílarnir Jaguar XE og XF í fjórhjóladrifnum útgáfum, sportbíllinn Jaguar F-Type, og síðast en ekki síst hinum goðsagnakennda Jaguar E-Type árgerð 1969, sem af mörgum er talinn einn fallegasti bíll sem hannaður hefur verið.

Um Evrópufrumsýningu er i raun að ræða varðand Jagur F-Type, að því er fram kemur í tilkynningu frá BL.

Fyrsti jeppinn frá Jaguar

Jaguar F-Pace er fyrsti jeppinn frá Jaguar. Aksturseiginleikar hans, snerpa og fjölhæfni til daglegra nota hafa mælst vel fyrir og bíllinn fengið mjög góða dóma á öllum markaðssvæðum. Hægt er að velja um nokkrar mismunandi dísilvélar í F-Pace, 180 hestafla dísil, 240 hestafla dísil eða 340-380 hestafla forþjappaða bensínvél.

Útblásturstölur nýju díslivélanna sem Jaguar kallar Ingenium eru með þeim lægstu sem gerast í þessum flokki bíla eða frá 139 g/km. Allir Jaguar F-Pace jepparnir eru með 8 þrepa sjálfskiptingu. Farangursrýmið er með því sem best gerist í þessum flokki eða 650 lítrar. Margmiðlunarbúnaður með íslensku leiðsögukerfi er staðalbúnaður í sumum gerðum af F-Pace en fáanlegt í allar gerðirnar.

Fjölskyldusportbíllarnir Jaguar XE og XF með fjórhjóladrifi

Jaguar XE og XF eru sportlegir fjölskyldubílar í millistærðarflokki sem auk ríkulegs búnaðaðar koma með sparneytnum dísil- eða bensínvélum. Eins og í öðrum bílum Jaguar eru bæði burðarvirki og yfirbygging XE og XF smíðuð úr áli sem dregur úr þyngd þeirra og eldsneytiseyðslu ásamt því að auka snerpu þeirra og aksturseiginleika. Í þessum bílum eru sömu vélar í boði og í F-Pace, þó meiri áhersla sé lögð á sparneytnu 180 og 240 hestafla Ingeniumdísilvélarnar. XE og XF er einnig hægt að fá með 340 hestafla bensínvél og í stærri gerðina, XF, er að auki hægt að fá 380 hestafla bensínvél. Í þessum gerðum verður mest áhersla lögð á að panta bílana með nýja ASPC fjórhjóladrifskerfinu frá Jaguar. Margmiðlunarbúnaður með íslensku leiðsögukerfi er staðalbúnaður í sumum gerðum en fáanlegt í allar gerðirnar.

Tvær goðsagnir sýndar í Listasafninu

Evrópufrumsýning fer fram hér á landi í Listasafni Reykjavíkur á morgun, laugardag, klukkan 13 þegar sýnd verður alveg ný útgáfa af sportbílnum Jaguar F-Type. Þessi ofursportbíll var sérstaklega fenginn að láni í tilefni þess að BL opnar umboð fyrir Jaguar hér á landi. Þessi nýja gerð F-Type er arftaki Jaguar E-Type, sportbíls frá árinu 1969 sem einning verður sýndur í Listasafninu og er talinn einn falegasti sportbíll sem hannaður hefur verið.

mbl.is