Bíða spenntir eftir komu Renault ZOE til landsins

Renault Zoe mun hafa mjög gott drægi og verður ekki …
Renault Zoe mun hafa mjög gott drægi og verður ekki mikið dýrari en sambærilegur bensínbíl.

Skúli K. Skúlason, framkvæmdastjóri sölusviðs BL, hefur fylgst náið með þróuninni á rafbílamarkaði og segir von á mjög áhugaverðum nýjum rafmagnsbílum.

„Í næsta mánuði kynnum við Renault ZOE og finnum strax að mikil eftirvænting ríkir vegna komu þessa bíls. Verður ZOE á mjög hagstæðu verði og nú þegar hafa margir lagt inn pöntun,“ segir Skúli og bætir við að kalla megi Renault ZOE næstu kynslóð rafbíla.

Framúrskarandi drægi

„Um er að ræða fjögurra manna bíl í B-stærðarflokki, af svipaðri stærð og Renault Clio og Nissan Micra. Það sem helst vekur áhuga er að rafhlaðan er 40 kW og uppgefið drægi 400 km. Er það mesta drægi rafbíls sem sést hefur, ef bílarnir frá Tesla eru undanskildir. Við íslenskar aðstæður reiknum við með að drægið verði á bilinu 280 til 310 km á einni hleðslu sem er t.d. feikinóg fyrir samgöngur fólks á suðvestur-horninu sem ferðast daglega til og frá Reykjavík. Þetta er bíll sem myndi leika sér að því að aka t.d. frá Selfossi til Reykjavíkur og aftur til baka.“

BMW i3 hefur farið ágætlega af stað. Ekki skemmir útlitið …
BMW i3 hefur farið ágætlega af stað. Ekki skemmir útlitið fyrir.


Mun Renault ZOE kosta frá 3.690 þús kr. og nefnir Skúli til samanburðar að sjálfskiptur Renault Clio kosti frá 2.790 þús kr. Þó ZOE sé ögn dýrari en sambærilegur bensínbíll er rafmagnið ódýrt og á þessu verði þarf ekki að aka bílnum mjög lengi til að borgi sig að velja rafmagnið. „Það veltur töluvert á hvernig bíllinn er notaður en sumir hafa reiknað að í venjulegum borgarakstri sé rafbíllinn orðinn hagkvæmari eftir aðeins eins og hálfs árs notkun, þegar allt er tekið með í reikninginn.“

Bætir Skúli við að fyrstu tvo mánuðina sem ZOE verður til sölu hér a landi muni heimahleðslustöð fylgja frítt með öllum seldum bílum.

Lofa rafmögnuðum Range Rover


BL býður upp á fleiri áhugaverða rafbíla. Flutti umboðið t.d. inn i8 sportbílinn frá BMW, og selur í dag BMW i3 og Nissan Leaf. Fékk Leaf nýlega öflugri 30 kW rafhlöðu sem gefur 200 til 250 km drægi, en i3 er með 33 kW rafhlöðu og hefur drægi yfir 200 km.

Núna hefur fengist fimm ára reynsla af Nissan Leaf.
Núna hefur fengist fimm ára reynsla af Nissan Leaf.


Aðspurður hvað framtíðin muni bera í skauti sér segir Skúli að rafbílar eigi enn mikið inni og framfarirnar í rafhlöðutækni séu örar. Verða rafhlöðurnar æ smærri, öflugri og ódýrari og margir framleiðendur farnir að setja sig í þær stellingar að rafvæða hjá sér flotann. „Land Rover hefur t.d. í hyggju að setja á markað rafmagnaðan Range Rover Vogue sportjeppa innan þriggja ára. Þar væri kominn rafbíll sem væri kjörinn fyrir íslenskar aðstæður. Næstu þrjú árin má vænta þess að fjöldi nýrra rafbíla verði kynntur til sögunnar, og drægið muni almennt fara upp í 400 til 500 km.“

Snýst ekki bara um bensínverðið


Virðist áhugi Íslendinga á rafbílum aukast jafnt og þétt. Skúli segir að vissulega geti sveiflur í bensínverði haft áhrif á sölu rafbíla enda verður rafbílinn þeim mun hagkvæmari kostur eftir því sem bensínið verður dýrara. Eru þó margir aðrir þættir en eldsneytissparnaður sem spila inn í ákvörðun kaupenda.

Dragi Renault Zoe eykst í 400 kílómetra.
Dragi Renault Zoe eykst í 400 kílómetra.


„Könnun hérlendis leiddi í ljós að 91% þeirra sem keypt hafa rafbíl voru hæstánægð með bílinn sinn, og þeir sem hafa kynnst því að eiga rafbíl vilja helst ekki neitt annað,“ segir Skúli og nefnir að rafbílarnir þyki t.d. mjög skemmtilegir í akstri. „Rafmótorinn skilar fullu togi strax við minnsta snúning og hröðunin er eins og á kraftmiklum sportbíl. Rafgeymarnir liggja eftir botni bílsins, gefa honum lágan þyngdarpunkt og meiri stöðugleika.“

Hafa reynst mjög vel

Virðist ekki koma að sök þó að íslenski kuldinn eigi að draga úr getu rafhlöðunnar. „Margir eigendur rafbíla geyma bílinn inni yfir nóttina og hafa í hleðslu á meðan. Þeir leggja af stað með rafhlöðurnar heitar og það tekur rafhlöðurnar heilan dag að kólna,“ segir Skúli.

Nissan Leaf rafbíllinn hefur verið fáanlegur hér á landi í fimm ár, eða frá 2012. Að sögn Skúla má núna fullyrða um viðhaldskostnað og endursölumöguleika þessa vinsæla bíls og kemur Leaf þar mjög vel út í samanburði við bensínbíla. „Má reikna með að viðhaldskostnaður rafbíls sé 35-40% minni og endursalan gengur svo vel að notaðir rafbílar staldra stutt við hjá okkur.“

ai@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: