Klessti í kappakstri sjálfekinna bíla

Þótt sjálfeknir bílar séu enn á þróunarstigi í megin dráttum kemur það ekki í veg fyrir að slíkum farkostum er att saman í kappakstur.

Fyrsti kappakstur sjálfekinna bíla fór fram í tengslum við keppni í rafbílaformúlunni, formula E, sem haldin var í Buenos Aires, höfuðborg Argentínu, 18. febrúar.

Roborace var þessi tilraunakappakstur nefndur en í honum tóku einungis tveir bílar þátt, sem nefndir voru DevBots. Þeir sýndu strax að eþir voru í stakk búnir til alvöru keppni. Óku hring eftir hring í brautinni og náðu allt að 200 km/klst ferðhraða.

En að því kom að DevBot 2 bíllinn taldi sig ráða við eina beygju á mun meiri hraða en á fyrri hringjum og þá fór allt úrskeiðis sem farið gat. Hann sperrti sig meira en hann gat; klessti á öryggisvegg og varð að hætta keppni. Var sigur DevBot 1 þar með létt fenginn.         

Mótshaldarar voru fljótir að senda út tilkynningu til að róa fólk en þar sagði að „engan ökumann“ hafi sakað. Hermt er að kappaksturinn hafi verið jákvæður fyrir aðstandendur bílanna. Einhvern lærdóm munu þeir draga af honum. Próf af þessu tagi ættu að hjálpa til við þróun sjálfekinna bíla og munu á endanum leiða til þess að hægt verður að halda alvöru  kappakstur með margfalt fleiri bílum frammi fyrir stúkum fullum af áhorfendum.

Ljóst má vera að keppnisbílarnir hafa verið fullir af gervigreindarbúnaði og forritarar þeirra hafi skrifað margan kóðann og algóritmann áður en þeir stilltu sér upp á rásmarkinu. Nú munu eflaust fleiri algrímin bætast við í ljósi reynslunnar. Vonandi geta reikniritin gert ráð fyrir stórfenglegum akstursmistökum og mismunandi ökustíl til að skemmta áhorfendum. Víst er að þeir munu vart flykkjast til móta til að horfa á óspennandi halarófu vélmenna á ferð.

mbl.is