Tengiltvinnbíllinn uppistaðan næstu árin

„Cayenne er jafnbesti bíll sem ég hef nokkru sinni komið …
„Cayenne er jafnbesti bíll sem ég hef nokkru sinni komið nálægt. Þetta er heitasti rafbíllinn frá okkur og fólk er einstaklega ánægt með hann,“ segir Benedikt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er þeirrar skoðunar, að tengiltvinnbíllinn sé brú til framtíðarinnar og að hann verði uppistaðan í markaðinum næstu árin. Innviðirnir á Íslandi eru bara engan veginn tilbúnir fyrir hreina rafbíla sem stendur.“

Þetta segir Benedikt Eyjólfsson hjá Bílabúð Benna, sem fer með umboð fyrir merki eins og Porsche, Opel, Chevrolet og SsangYong. Þaðan eru að koma athyglisverðar nýjungar tengiltvinnbíla.

Opel Ampera-e fær skammt sinn úr hraðhleðslutæki.
Opel Ampera-e fær skammt sinn úr hraðhleðslutæki.


„Það sem stendur upp úr hjá okkur er að við höfum verið að selja tengiltvinnbílinn Porsche Cayenne. Þar sem við erum með svo ódýra raforku hérna heima finnst mér út í hött að vera með einfaldan tvinnbíl. Þegar Porsche byrjaði með tvinnútgáfuna án tengils flutti ég engan slíkan bíl inn. Þeir voru ekki endilega mjög ánægðir með það hjá Porsche en sögðu seinna þegar ég var kominn með tengiltvinnbílinn að þetta hefði verið rétt hjá mér. Að vera bara með einfalt hybrid-kerfi siturðu uppi með þyngd rafgeymisins og ert bara að nota tvinnbúnaðinn þegar þú bremsar og svoleiðis.

Plug-in Cayenne keyrir aftur á móti þetta 25 til 30 kílómetra á rafmagninu einu saman og er alltaf að hlaða þegar bremsað er. Þessi bíll hefur komið gríðarlega vel út,“ segir Benedikt.

Margir vænta vatnaskila á rafbílamarkaði þegar Porsche Mission e hugmyndabíllinn …
Margir vænta vatnaskila á rafbílamarkaði þegar Porsche Mission e hugmyndabíllinn fer í framleiðslu. Hraði og drægni bílsins verða að sögn meiri en nú þekkist.


Milli vélar og skiptingar

Hið athyglisverða við Cayenne-jeppann er að rafmótorinn er staðsettur á milli vélar og sjálfskiptingar. Er driflínan því óskert. Algengara er í tvinnbílum að rafmótorinn sé bara á afturdrifinu og vélin á framdrifinu. Með þeirri útfærslu er slíkur bíll ekki lengur með fjórhjóladrifi þegar rafmagnið þrýtur. Í samtalinu leynir Benedikt ekki hrifningu sinni á þessum bíl. „Cayenne er jafnbesti bíll sem ég hef nokkru sinni komið nálægt. Þetta er heitasti rafbíllinn frá okkur og fólk er einstaklega ánægt með hann,“ segir hann.

Benedikt segir að frá Porsche sé að koma það sem hann kallar algjöran tímamótabíl. „Hér er um að ræða bílinn Mission E. Hann á að keyra yfir 500 kílómetra á einni hleðslu og vera undir kortéri að hlaða geymirinn að 80% fyllingu.

Annað er ekki að sjá en Opel Ampera-e sé augnakonfekt.
Annað er ekki að sjá en Opel Ampera-e sé augnakonfekt.


Skelin öll úr áli

Þá erum við mjög spenntir fyrir alveg splunkunýjum Panamera-tengiltvinnbíl sem kemur í apríl. Hann keyrir yfir 50 kílómetra á rafmagni einu. Þetta er algjörlega nýr bíll sem hefur fengið þá umsögn að vera einskonar stækkuð útgáfa af hinum stórglæsilega og sígilda Porsche 911. Skelin á honum er öll úr áli og þetta er afskaplega flottur bíll sem verður með drif á öllum fjólum. Til gamans má geta þess að drifskaftið fer gegnum pönnuna á vélinni, það liggur allt svo lágt í þessum bíl.“

Frá Opel er síðan að koma afar athyglisverður bíll, Ampera-e sem er systurbíll Chevrolet Bolt sem er bíll ársins í Bandaríkjunum. „Þetta er líka algjör tímamótabíll sem keyrir 500 kílómetra á einni hleðslu. Þetta er venjulegur bíll á frábæru verði, kostar um 40 þúsund dollara í Bandaríkjunum. Það er talað um hann sem algjöra byltingu,“ segir Benedikt.

Porsche Panamera kemur á næstunni með fjórhjóladrifi.
Porsche Panamera kemur á næstunni með fjórhjóladrifi.


Loks segir hann, að mikil uppsveifla sé í starfsemi bílaframleiðandans SsangYoung í kjölfar tilkomu nýrra eigenda að fyrirtækinu sem eru indverskir. „Þeir eru á leiðinni með tengiltvinnbíla, en þó ekki fyrr en 2019.“

Innviðir ekki tilbúnir

Hér að framan lýsti Benedikt þeirri skoðun sinni að tengiltvinnbíllinn væri brú til framtíðar þar sem uppbygging innviða vegna rafbílavæðingar væri skammt á veg komin. Innviðirnir á Íslandi væru ekki tilbúnir fyrir hreina rafbíla. „Það þýðir ekkert að setja hleðslustöðvar upp á miðri Miklubraut, þær verða frekar að vera þar sem fólkið er, eins og til dæmis við Kringluna. Ég heyrði það líka nýverið að ef settar yrðu upp fjórar eða fimm hraðhleðslustöðvar við til dæmis Staðarskála þá þurfi að leggja háspennulínu þangað. Geti rafbíll ekki keyrt til Akureyrar á einni hleðslu þá verður aldrei annað en bíll númer tvö; aldrei fjölskyldubíll númer eitt. Tengiltvinnbíllinn er málið næstu þrjú til sex árin. Síðan taka hreinir rafbílar meira við.“

agas@mbl.is

Kort þetta sýnir drægi helstu keppinauta Opel Ampera-e.
Kort þetta sýnir drægi helstu keppinauta Opel Ampera-e.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: