Keypti bílinn án þess að prófa hann fyrst

Eiður segir að Nissan E-NV200 bíllinn hafi reynst Grettistaki vel …
Eiður segir að Nissan E-NV200 bíllinn hafi reynst Grettistaki vel og að ekki skemmi fyrir að bensínkostnaður er enginn.

Í ys og þys bæjarlífsins á Sauðárkróki bruna misháværir bílarnir eftir Skagfirðingabrautinni en einn sker sig þó úr með afgerandi hætti. Það er sendibíllinn sem veitingaþjónustan Grettistak gerir út.

Ekkert vélarhljóð berst frá þessum myndarlega sendiferðabíl og vegna hans hefur kolefnisfótspor af útkeyrslu fyrirtækisins nær alfarið horfið. Kaupin á bílnum má rekja til auglýsingar í Mogga sem Eiður Baldursson, annar tveggja eigenda Grettistaks, rak augun í, frá BL.

„Ég hafði verið að velta fyrir mér að kaupa nýjan sendibíl því hann var óþarflega stór og klossaður sá sem við vorum með hjá fyrirtækinu á þeim tíma. Eitthvað hafði ég leitt hugan að þessari nýju tækni en þarna ákvað ég einfaldlega að láta á þetta reyna. Ég hafði samband suður og bara pantaði bílinn óséðan,“ segir Eiður.

Þannig festi hann kaup á nýjum sendiferðabíl úr verksmiðjum Nissan sem ber einkennisheitið E-NV200 og er hann í svokölluðum millistærðarflokki. Eiginþyngd hans er 1641 kíló, lengdin er rúmir 4,5 metrar og breiddin er rétt rúmir 2 metrar með spegla úti. Hæð bílsins upp í efsta punkt er 1,86 metrar og hjóhafið er rúmir 2,7 metrar.

Hann segir að bíllinn hafi reynst vel í þau tæpu tvö ár sem fyrirtækið hefur haft hann í sinni þjónustu.

„Við erum að keyra 30 til 40 kílómetra að jafnaði á dag og þá daga þurfum við ekkert að stinga honum í hleðslu nema yfir nóttina. Við höfum verið með veislur í Varmahlíð og við getum farið á honum þangað en ef við erum með veislur lengra í burtu þá höfum við þurft að útvega okkur lánsbíl. Það er kannski eini gallinn á bílnum að hann mætti hafa meiri drægni og maður er bundinn af henni en á móti kemur þá er rekstrarkostnaðurinn af honum nær enginn og bifreiðagjöldin eitthvað í kringum 6.000 krónur á ári. Maður finnur helst að það dragi úr drægninni þegar frostið fer í kannski tíu stig. Það hefur áhrif á rafhlöðuna.“

Eiður segir að bíllinn hafi vakið nokkra athygli þegar hann kom á Krókinn en að fyrst og fremst sé ánægjulegt hversu umhverfisvænn hann er.

„Við erum að skjótast hér um bæinn allan daginn, bæði með mat í grunn- og framhaldsskólann og þá keyrum við líka út máltíðir í mörg fyrirtæki í bænum. Það er gott að það skuli enginn útblástur hljótast af því.“

Hann segir að þegar komi að endurnýjun bílsins þá muni hann íhuga alvarlega að kaupa aftur rafbíl af svipuðu tagi.

„Ég hef trú á því að þessir bílar verði framleiddir með öflugari rafhlöðu en nú er og þá verða þeir mjög ákjósanlegir í starfsemi eins og okkar.“ ses@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: